Íslenska kvikmyndin Lamb, eða Dýrið, er í níunda sæti bandaríska aðsóknarlistans eftir sýningar helgarinnar, en myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum á sex hundruð bíótjöldum um síðustu helgi sem er meiri útbreiðsla en nokkur önnur íslensk mynd hefur fengið í landinu.
Tekjur Dýrsins um helgina nema rúmum sjötíu milljónum króna, en tekjurnar minnkuðu um 45,7% milli helga. Samanlagt nema tekjur myndarinnar í Bandaríkjunum nú rúmum tveimur milljónum dala, eða 260 milljónum íslenskra króna.
Tekjur myndarinnar á Íslandi eru komnar upp í fimm milljónir króna.
Hrollurinn heillar
Vinsælasta kvikmyndin í Bandaríkjunum þessa vikuna er hrollvekjan Halloween Kills sem frumsýnd var hér á landi nú um helgina, rétt eins og í Bandaríkjunum. No Time to Die, nýja James Bond myndin, situr í öðru sæti. Í þriðja sæti er svo Venom: Let there be Carnage, sem kemur í íslensk bíóhús næsta föstudag.
Dýrið segir frá sauðfjárbændunum Maríu og Ingvari sem búa í fögrum en afskekktum dal og þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund en verður þeim síðar að tortímingu.