Versta mynd Sandlers til þessa

Það er ekki til nógu sterk hausverkjartafla í heiminum sem getur læknað mígreniskastið sem ég fékk eftir að hafa setið yfir þessari mannskemmandi ælufötu sem setur sér einungis það markmið að útiloka alla sem hafa nokkurn tímann kallað sig Adam Sandler-aðdáendur, nema aðeins þá sem eru seinþroska, með alvarlegar geðraskanir eða einfaldlega 12 ára og yngri.

Þegar ég sá fyrst trailerinn fyrir myndina hélt ég að einhver hefði sett saman eitthvað besta feik sýnishorn sem ég hafði nokkurn tímann séð. Þetta leit út eins og fullkomin satíra á allt það sem Sandler hefur gert vitlaust á ferlinum. Brosið var ekki lengi að hverfa þegar ég sá að þetta væri ekkert grín, heldur alvöru grín-MYND. Heilinn minn neitaði að meðtaka þetta, og alveg sama hversu háværar viðvörunarbjöllurnar voru í hausnum á mér, þá endaði ég með því að sjá hvort þetta væri jafnslæmt og þetta leit út fyrir að vera.

Ég hafði semsagt tekið þá fávitalegu ákvörðun að fórna 90 mínútum ævi minnar í mynd sem sýnir gamanleikarann í dragi, þar sem ekki bara er ætlast til þess að við tökum hann alvarlega sem kvenkyns persónu, heldur eigum við að þykja vænt um hana. Gleymum svo ekki þeirri mikilvægu staðreynd að myndinni er leikstýrt af Dennis Dugan, sem er með öllum líkindum jafnmikill húmoristi og maður sem lemur börnin sín með herðartréi.

Dugan hlýtur að vera kominn í einhvers konar lífshættu eftir að hafa misþyrmt gagnrýnendum svona mikið í gegnum árin. Jack and Jill er allra versta myndin sem hann hefur gert (þó ég hafi alveg trú á því að hann gæti gert eitthvað verra). Hún er allsherjar mistök frá byrjun til enda og hroðaleg tilraun til þess að gera heila mynd úr steindauðum brandara. Dugan á næstum því skilið óvenjulegt hrós fyrir að vera nógu djarfur til að henda svona kvikindi í framleiðslu og þóst hafa trú á því. Engu að síður ráðlegg ég manninum héðan í frá að láta sig hverfa og finna sér nýtt heimili í þriðja heims landi. Þá eru minni líkur á því að einhver eins og ég elti hann með barefli.

Ég reyndi að hemla á mér skapið hér áður fyrr með þennan leikstjóra (ó, guð hvað ég reyndi…). Hann gerði nú Happy Gilmore og Zohan, sem eru ábyggilega á meðal skástu Sandler-grínmyndanna (sennilega voru þetta ágætis handrit), en þegar titlar eins og National Security, The Benchwarmers, Grown-Ups og Just Go with It fóru að einkenna ferilinn hans fór ég bara að verða reiðari með hverri tilraun sem hann gerði til að gera eitthvað fyndið og skemmtilegt. Ef það er satt að hláturinn lengi lífið þá hlýtur Jack and Jill að hafa tekið frá mér nokkur góð ár.

Ég hata þessa mynd svo mikið að mig langar til að hrækja á hvert einasta plakat sem ég sé fyrir hana. Hún er eiginlega svo léleg að ég þori varla að horfa aftur á Punch-Drunk Love, Spanglish eða Funny People haldandi að Sandler hafi skyndilega tekist að gera góðu dramamyndirnar sínar verri af einhverjum ástæðum. Í Funny People leit meira að segja út fyrir að hann væri að gera grín að asnalegum „concept-myndum“ eins og þessari. Það er bara svo sársaukafullt að horfa upp á þennan moldríka, vinsæla (og – á góðum degi – lúmskt hæfileikaríka) gamanleikara klæða sig upp í kvenmannsgervi, tala í óþolandi rödd og leika síðan á móti sjálfum sér þar sem hann er á sjálfsstýringu.

Persónulega myndi ég aldrei meiða konu, en ef ég gæti það þá myndi ég teygja mig inn í skjáinn og berja lífið úr þessari Jill „persónu,“ en það væri svosem í lagi því hún er (of)leikin af karlmanni, og þá karlmanni sem tekst ekki að selja þessa persónu sem kvenmann í eina sekúndu. Ég sé ekki neitt annað en Sandler með hárkollu, feitan rass, gervibrjóst og talandi eins og stereótýpísk gyðingamóðir. Þetta minnir á verstu SNL-sketsanna sem hann gerði á sínum tíma. Þessa sem voru aldrei neitt fyndnir því gaurinn reyndi alltof mikið á sig. Ef þessi tvíburahugmynd hefði verið eitthvað fyndin, þá hefði hún samt misst dampinn ansi fljótlega. Ekkert sem Sandler segir eða gerir í allri myndinni kitlar í manni hláturtaugarnar og maður á bágt með að skilja hvað hann leggst lágt niður fyrir grínið. Það eina góða sem kemur út úr henni eru gestahlutverkin (Johnny Depp?!?!), og meira að segja þau þreytast áður en langt um líður.

Í smástund lítur þó út fyrir að Al Pacino, sem lærði víst ekkert af Gigli, ætli að koma og bjarga myndinni, en það er áður en maðurinn missir alveg vitið og verður vandræðalegri til áhorfs heldur en sjálfur Sandler. Að minnsta kosti býst maður við því að barnalegur húmoristi skrapi botninn í svona hroðalegri mynd. Pacino, hins vegar, á að vita betur. Hann á þó skemmtilega setningu alveg í lok myndarinnar þar sem hann segir meira eða minna það sem áhorfandinn er að hugsa. „Burn this!“ mælir hann, eftir að hann horfir á auglýsingu sem persóna Sandlers býr til.

Ég vorkenni samt fáum jafnmikið og greyið stúlkunni, henni Katie Holmes. Áður en hún breyttist í frú Tom Cruise var hún metnaðarfull leikkona. Eftir það hvarf hún alveg, og í þessari mynd gerir hún ekkert annað en að gretta sig framan í karakterinn Jack og skamma hann fyrir að þola ekki systur sína. Það er að vísu ekkert nema magnað hvernig myndin ætlast til að áhorfendum líki vel við Jill inn á milli ágengu hegðun hennar. Kjánahrollurinn nær síðan hámarki með píndum og afskaplega fyrirsjáanlegum boðskap sem er í senn þykk klisjudrulla út í gegn.

Það tæki margar blaðsíður að útskýra hvað það er sem gerir Jack and Jill svona hræðilega, en fyrir utan það að vera alfarið ófyndin með kannski tveimur litlum undantekningum (mjög stuttir djókar samt, því miður) þá gerir hún allt það sem grínmyndir eiga ekki að gera; Hún er þreytandi, barnaleg, áreynslumikil, þunn, leiðinleg og skrifar augljóslega atriðin sín í kringum brandaranna í stað þess að gera það öfugt. Aðstandendur voru greinilega ekki að reyna að gera góða mynd. Þeir eru annað hvort að fíflast í okkur til að sjá hvað Sandler-aðdáendur sætta sig við, eða þeir hafa einfaldlega bara allt, allt öðruvísi húmor en ég og einhverra hluta vegna líður mér eins og betri manni fyrir vikið.

Það er eitthvað mikið að þegar gamanmynd fær þig til að sakna manna eins og Pauly Shore og Rob Schneider, en af augljósum ástæðum er Jack & Jill tvöfalt meira böggandi heldur en flestar aðrar Sandler-grínmyndir. Ég vil að lokum óska bæði leikaranum og leikstjóranum innilega til hamingju með það að eiga tvær af verstu myndum ársins 2011. Hvað Happy Madison-kompaníið varðar hefur ekki sést verri grínmynd síðan The Master of Disguise.

Skellum botneinkunninni á þetta kvikindi (1/10), og köllum hana bara Jar Jar-inn.

Hvernig fannst þér Jack and Jill?