Óvæntir gestir stigu á stokk á tískusýningu Valentino í París í dag. Ben Stiller og Owen Wilson voru þar mættir í hlutverkum sínum úr gamanmyndinni Zoolander, sem var frumsýnd árið 2001. Stiller leikstýrði myndinni, skrifaði handritið og lék titilhlutverkið, karlfyrirsætuna Zoolander.
Gjörningurinn var til þess að auglýsa framhaldsmyndina sem er væntanleg í febrúar á næsta ári. Í nóvember sl. var opinberlega tilkynnt um að myndin yrði gerð og hafa Ben Stiller, Owen Wilson og Christine Taylor staðfest þátttöku í myndinni.
Leikarinn Will Ferrell hefur einnig staðfest að hann muni snúa aftur sem tískukrimminn Jacobim Mugatu, en í fyrri myndinni reyndi Mugatu að heilaþvo Zoolander og fá hann til að myrða forsætisráðherra Malasíu.
Hér að neðan má sjá myndband þar sem Zoolander og Hansel sýna okkur hvað er heitast í tískuheiminum í dag. Hansel er virkilega heitur þessa dagana.