Yates gerir Doctor Who kvikmynd

Leikstjóri síðustu fjögurra Harry Potter myndanna, David Yates, virðist hafa fundið sér nýtt verkefni; Doctor Who. BBC eru að undirbúa kvikmynd í fullri lengd um geim og tímaflakkarann lífsseiga og hafa ráðið Yates til þess að stýra verkefninu. Doctor Who eru lífsseigustu vísindaskáldsöguþættir allra tíma, en þeir gengu frá árinu 1965 – 1989 og var komið í gang aftur árið 2005 og hafa þeir gengið óslitið síðan. 11 leikarar hafa leikið Doctor Who á þessum tíma, þar af þrír frá því að nýja serían hóf göngu sína. Yates segir þó að ekki verði reynt að halda samhengi við þættina í kvikmyndinni.

„Við ætlum að eyða tveimur til þremur árum í að ná þessu rétt. Verkefnið þarf róttæka breytingu til þess að komast inn á stærri leikvang. Russel T. Davies og Steven Moffat (umsjónarmenn nýju þáttanna) hafa gert sínar eigin útgáfur, sem voru frábærar, en við þurfum að setja það til hliðar og byrja upp á nýtt. Við erum að leita að ákveðnum Breskum eiginleikum í handritshöfundi, en Steve Kloves skrifaði Potter myndirnar og náði hugarfarinu fullkomlega, þannig að við erum að ræða við Ameríska handritshöfunda líka.“

Að einu leiti er furðulegt að sjá Yates skuldbinda sig þessu verkefni, því hann hefur talað um að vilja færa sig að minni myndum eftir Potter, og hafnaði m.a. aðlögun á Stephen King bókinni The Stand, sem Ben Affleck er nú orðaður við. En kannski hefur honum einfaldlega litist betur á þessa mynd.

Hvernig lýst fólki á þessi plön? Þetta er náttúrulega allt á byrjunarreit, en mér lýst einhvernvegin aldrei á hugmyndir sem fela það í sér að „Reeboota“ eitthvað sem er nýbyrjað aftur. Að hafa eina útgáfu af Doctor Who í sjónvarpinu, og svo kvikmynd undir sama nafni, en með öðrum leikurum og tengist þeirri seríu ekki neitt væri bara ruglandi. Soldið eins og hugmynd Bryan Singer að gera Battlestar Galactica kvikmynd, sem munu ekkert tengjast þáttunum sem luku göngu sinni fyrir nokkrum misserum.

Verð samt að viðurkenna að ég hef sáralítið horft á Doctor Who þættina, og að því leiti væri auðveldara fyrir mann að komast inn í myndina ef að hún væri bara ný fersk byrjun. Eru einhverjir Doctor Who aðdáendur hér sem hafa skoðanir?