Woody í bobba á netinu

Stórleikarinn Woody Harrelson tók þátt í dagskrárlið á vefsíðunni Reddit.com á dögunum sem kallast Ask Me Anything. Dagskrárliðurinn gengur þannig fyrir sig að frægir einstaklingar sitja fyrir spurningum notenda þar sem allt er leyft.

Reddit gefur sig út fyrir að vera forsíða internetsins, en síðan er keyrð áfram af notendum sem hafa byggt upp gríðarlega öflugt samfélag og eru þekktir fyrir að vera fyrstir með fréttirnar, öflugar umræður og ‘no bullshit approach’. Þá er notendum oftar en ekki úthúðað fyrir að endurbirta frétt eða mynd sem áður hefur komið fram á síðunni. Hægt er að hafa áhrif á birtingarefni síðunnar með ‘upvote-um’ og ‘downvote-um’ sem má líkja við like og dislike.

Woody samþykkti að taka þátt í tilefni af útgáfu nýjustu myndar hans, Rampart, þar sem hann leikur spilltan lögreglumann. Myndin hefur fengið sæmilega dóma og markaðsdeildin ákvað að þátttaka í Ask Me Anything væri góð leið til þess að kynna myndina á veraldarvefnum. Það sem þeir gerðu hins vegar ekki ráð fyrir var að Reddit notendur eru vægðarlausir þegar kemur að sálarlausum kynningum og ‘PR stuntum’.

Ljóst var frá upphafi að Woody Harrelson væri mættur til þess að kynna myndina og ekkert annað. Eftir nokkrar spurningar kom einn notandi með eftirfarandi spurningu:

 

 

,,I swear this is a true story. I went to a high school in LA and you crashed our prom after party (Universal Hilton). You ended up taking the virginity of a girl named Roseanne. You didn’t call her afterwards. She cried a lot. Do you remember any of this and can confirm or have you been so knee deep in hollywood pooty for so long that this qualifies as a mere blip?“

Notandinn AndyRooney sakaði Harrelson um að hafa sofið hjá samnemanda sínum á lokaballi þeirra í menntaskóla, en Harrelson er þekktur fyrir að vera alræmdur kvennabósi. Þrátt fyrir að Harrelson hafi neitað þessum sökum og reynt að halda áfram að svara spurningum vildu notendurnir ekkert með hann hafa. Stuttu síðar flúði Harrelson á hólm og sneri ekki aftur.

Það hafa komið upp umræður á netinu um hverjum sé um að kenna og margir vilja meina að notendurnir hafi misnotað vald sitt í þessu tilviki. Dæmi hver fyrir sig – hægt er að skoða viðtalið hér.