Svo virðist sem að internetlekinn hafi ekki mikið skemmt fyrir aðsókninni á X-Men Origins: Wolverine þessa helgi, en vestanhafs tók myndin inn heilar $87 milljónir. Þetta gerir hana að næsttekjuhæstu X-Men-myndinni hingað til.
Fyrsta myndin græddi ekki nema $52 milljónir þegar hún kom út árið 2000. Önnur myndin náði $82 milljónum en sú þriðja trompaði þær vel með $103 milljónir fyrstu helgina.
Aðstandendur Wolverine höfðu – skiljanlega – miklar áhyggjur af aðsókninni eftir að ókláruð útgáfa lak á netið þann 1. apríl og var sótt yfir 100,000 sinnum á fyrsta sólarhringnum. Til að bæta gráu ofan á svart voru menn ekkert alltof ánægðir með ræmuna í meirihluta, og gagnrýnendur ekki síður. En slíkt virðist ekki ætla að stoppa hörðustu Hugh Jackman-aðdáendur, og ef á að marka opnunartölurnar má segja að þeir séu nokkuð margir.
Enn á eftir að koma í ljós hvernig myndinni gekk á Íslandi, en myndin var hér frumsýnd tveimur dögum á undan bandaríkjunum.

