Kominn er skriður á gerð sjöttu Die Hard myndarinnar hjá 20th Century Fox kvikmyndaverinu, en vinnuheiti myndarinnar er Die Hard Year One.
Í október var greint frá því að myndin yrði líklegast forsaga sem gerðist á áttunda áratug síðustu aldar, en þar myndi Bruce Willis leika gestahlutverk í tveimur atriðum, sem lögreglumaðurinn John McClane í nútímanum, sem myndi kallast á við forsöguna, sem myndi gerast nánar tiltekið árið 1979, 10 árum áður en atburðirnir í fyrstu Die Hard myndinni gerðust.
Len Wiseman mun leikstýra.
Wiseman segir núna í nýju samtali við Fox sjónvarpsstöðina að Bruce Willis yrði í stærra hlutverki í myndinni en áður hefur komið fram: „Hann mun koma meira við sögu en það. Persónan er auðvitað í nútímanum, og erfitt að láta það ríma við upprunasögu. [….] Þetta er forsögu/framhaldssögublanda sem ég hef hvergi séð áður og er ótrúlega mikið öðruvísi.“
Leikstjórinn var einnig spurður hvort að Bonnie Bedelia myndi snúa aftur sem eiginkona John, Holly, en hún hefur ekki sést í myndunum síðan í mynd númer 2, Die Hard 2: Die Harder. Hann kvaðst ekki getað staðfest það, en sagði þó að hann myndi vilja vita meira um hvernig samband þeirra þróaðist, og það yrði skoðað í myndinni.
„Hvenær kynntust þau? Þetta er í raun ástarsaga sem hefur aldrei verið sögð.“
Len Wiseman er ekki ókunnugur heimi John McClane, en hann leikstýrði Live Free or Die Hard árið 2007.