Aðdáendur harðhaussins Bruce Willis eiga von á góðu, því Die Hard og Glass leikarinn hefur gert samning um gerð þriggja nýrra kvikmynda fyrir framleiðslufyrirtækið MoviePass Films.
Forstjórar MoviePass Films og meðstofnendur, þeir Randall Emmett, George Furla og Ted Farnsworth skrifuðu undir samninginn við Willis.
Samningurinn er framhald á löngu og farsælu sambandi Willis og þeirra Emmett, Furla og Oasis. Hann hefur gert alls 14 kvikmyndir með þríeykinu, þar af myndina 10 Minutes Gone, sem er í lokafrágangi. Fyrri myndir eru til dæmis 16 Blocks og Lay the Favorite sem Stephen Frears leikstýrði.
Fyrsta kvikmyndin í þessum nýja þriggja mynda pakka verður Trauma Center eftir Paul da Silva. Tökur hennar hefjast í febrúar í Miami. Ráðning annarra leikara stendur yfir.
Randall Emmett sagði við Deadline um samninginn að hann teldi Bruce vera hluta af MoviePass fjölskyldunni nú orðið. „Bruce er ekki bara ein stærsta kvikmyndastjarna heims, heldur er hann náttúruafl í sjálfu sér, og við hlökkum til samstarfsins við hann.“
Við sama tilefni sagði Willis: „Eftir 15 ár, þá hlakka ég til að vinna áfram með þeim Randall og George á næsta ári.“