Webb leikstýrir (nýju) Spider-Man

Það er eitthvað fyndið við nafn leikstjórans Marc Webb, sérstaklega þegar maður tengir það saman við Spider-Man, en hann mun með öllum líkindum vera leikstjóri „re-boot“ myndarinnar. Fyrir þá sem ekki vissu þá leikstýrði Webb myndinni (500) Days of Summer, sem hefur unnið ýmis indí-mynda verðlaun og var á mörgum topplistum hjá gagnrýnendum vestanhafs yfir bestu myndir ársins 2009.

Sony gaf út fréttatilkynningu í gær og þar koma fram ummæli Webbs, sem segist vera alveg í skýjunum. Hann er mikill aðdáandi Sam Raimi-myndanna en bætir því við að það er ýmislegt hægt að gera glænýtt við hráefnið.

Framleiðslan er víst þegar farin af stað og áætlað er að þetta verði ein af stórmyndum ársins 2012.

Sony-menn eru ekki lengi að þessu… Það er ekki langt síðan þessi frétt var gefin út.