Wanted 2 er komin í gír

Þrjú ár eru liðin síðan að Angelina Jolie og James McAvoy skutu sér leið í gegnum hina viðburðaríku Wanted, en jafnvel áður en fyrsta myndin kom út var byrjað að tala um framhald. Í gegnum árin hefur tilvonandi tilvist framhalds verið í lausu lofti og hafa aðstandendur fyrstu myndarinnar bæði byggt upp og skotið niður orðróma. Nú hins vegar hafa báðir handritshöfundar fyrstu myndarinnar, þeir Derek Haas og Michael Brandt, verið ráðnir af Universal til að skrifa framhaldið, en Haas tilkynnti fyrstur á Twitter síðu sinni fyrr í dag þessar fregnir.

„Við höfum bara alltaf elskað ‘Wanted’ heiminn og elskuðum að vinna með Universal og (leikstjóranum) Timur (Bekmambetov) að fyrstu myndinni, þannig við erum spenntir,“ sagði Haas í viðtali við The Wrap. Að svo stöddu er enginn leikstjóri staðfestur en teymið myndi gjarnan vilja fá Bekmambetov aftur til að leikstýra.

Samkvæmt Haas mun seinni myndin ekki fylgja myndasögu eins og sú fyrsta og mun hún „byrja strax eftir atburðina sem gerðust í enda Wanted. Við fylgjum síðan Wesley nokkrum árum síðar.“