Ekki fyrir löngu stóð til að James Cameron í samstarfi við Brian Helgeland, sem skrifaði m.a. handritin fyrir L.A. Confidential og Mystic River eftir skáldsögunum, myndu vinna að kvikmynd um ævi Kleópötru; sú útgáfa átti að bera PG-13 merkið og, í stíl við Cameron, vera í 3D. Það var þangað til að 20th Century Fox fékk dollaramerki í augun og gaf „gríðarstóra“ upphæð til styrktar umhverfissjóðar Camerons, í tilraun til að fá kappann til að fara að vinna að næstu tveimur Avatar myndunum, sem hann gerði. Þá tók leikstjórinn Paul Greengrass, frægur fyrir meirihluta Bourne myndanna, við verkefninu um Kleópötru en endaði á því að einblína á leikstjórn myndarinnar Memphis, sem fjallar um morðið á Martin Luther King Jr.
Á einum tímapunkti var það staðfest að stórleikkonan Angelina Jolie mun fara með titilhlutverkið, en í mars síðastliðnum hófust viðræður við engan annan en David Fincher um að leikstýra myndinni. Þó að hann hefur ekki enn samþykkt, virðist sem að handritshöfundurinn Eric Roth, ekki Eli eins og titill fréttarinnar gefur til kynna, sem skrifaði handritið fyrir 2008 mynd Finchers The Curious Case of Benjamin Button; muni para sig með leikstjóranum. Ef Roth samþykkir mun hann skrifa handrit byggt á bókinni Cleopatra: A Life, sem framleiðandinn Scott Rudin keypti réttinn af; en Rudin hefur verið fastur við verkefnið síðan að Cameron var viðstaddur.
Það verður spennandi að sjá hvort að Fincher og Roth fái að vinna aftur saman, enda skilaði seinasta samstarf þeirra ansi góðri mynd, en það sem gæti hugsanlega komið í veg fyrir samstarfið er þétt áætlun þeirra. Eins og flestir vita er nýjasta mynd Finchers, The Girl with the Dragon Tattoo, væntanleg í næsta mánuði (það er ekki langt í þetta gott fólk!) og er búist við því að hann muni snúa aftur til að leikstýra seinni myndinni og jafnvel þeirri þriðju. Ásamt því er hann einnig fastur við mynd Disneys, 20.000 Leagues Under the Sea: Captain Nemo, þannig við verðum bara að sjá hvort hann telji sig geta troðið Kleópötru myndinni inn í dagskránna; enda vilja Sony menn fara með myndina í framleiðslu sem fyrst.