Bandaríski leikarinn Jesse Eisenberg var á vörum margra aðdáenda myndasagna fyrir nokkrum árum þegar stórmyndin Batman v Superman var frumsýnd vorið 2016 við heldur skiptar skoðanir fólks. Eisenberg fór með hlutverk skúrksins Lex Luthor og var túlkun leikarans á illmenninu oft í brennidepli. Þótti ýmsum leikarinn vera hreint og beint óþolandi í þessu hlutverki.
Eisenberg var staddur í viðtali við miðilinn InThePanda þegar hann var spurður út í það hvort hann myndi íhuga að snúa aftur sem Luthor í komandi kvikmyndum úr heimi DC-myndasagnanna. Leikarinn svaraði skýrt að hann væri meira en til í að gæða Luthor lífi á nýjan leik. „Mér þætti vænt um að fá að leika hann aftur. Þetta er svo geggjuð persóna og í ofurhetjumynd er langskemmtilegast að leika skúrkinn,“ segir Eisenberg.
„Góðu karlarnir eru auðvitað fínir en illmennin eru skemmtilegri vegna þess að þau eru íburðarmeiri og gefst meira tækifæri til að sleppa sér.“
Ýmsar getgátur hafa annars vegar myndast í gegnum árin, og ekki síst í kringum útgáfu Batman v Superman, um að Eisenberg hafi sótt innblástur með frammistöðu sinni í handritshöfundinn Max Landis, eða réttar sagt taktana hans, talanda og almenna orku. Landis á að baki kvikmyndir á borð við Chronicle, American Ultra (þar sem Eisenberg fór með annað aðalhlutverkið) og Bright en hann var einn eftirsóttasti handritshöfundur Hollywood um tíma.
Landis hefur þó lengi þótt – rétt eins og karakter Eisenbergs – vægast sagt umdeildur í sínu fagi og spilar það eflaust inn hvers vegna túlkun hans á Luthor hafi ekki fallið í kramið hjá öllum. Svo ekki sé heldur minnst á það hvað frammistaða Eisenbergs var langt fjarri þeim túlkunum sem hefur áður sést á illmenninu fræga.
Fyrir fólk sem sá ekki BvS má sjá hér brot úr nálgun Eisenbergs.