Wolverine stjarnan Hugh Jackman á í viðræðum um að leika aðal þorparann í væntanlegri mynd um Pétur Pan, Pan. Hlutverkið sem um ræðir er hlutverk Svartskeggs sjóræningja, eða Blackbeard eins og hann heitir á frummálinu.
Joe Wright leikstýrir Pan eftir handriti Jason Fuchs.
Eins og við sögðum frá hér á sínum tíma þá vildi Warner Bros fá spænska leikarann Javier Bardem í hlutverkið, en hann hafnaði tilboðinu.
Jackman er ekki þekktur fyrir að leika hlutverk illmenna í bíómyndum, en hefur þó tekist á við drungaleg hlutverk, ef svo má að orði komast. Hann fékk mikið lof fyrir leik sinn í spennutryllinum Prisoners, en þó hann hafi ekki leikið þorpara í þeirri mynd þá var hlutverkið dekkra en mörg önnur sem hann hefur tekið að sér.
Pan fjallar um munaðarlausan dreng sem fer í svokallað Hvergiland þar sem hann verður hetja og leiðir uppreisn gegn illum sjóræningjum.
Hugmyndin er að Svartskeggur sjóræningi verði aðal illmennið í myndinni, en kafteinn Krókur, sem gjarnan er aðal þorparinn, yrði með Peter Pan í liði þar til hann svíkur lit og gengur til liðs við óvininn.
Ekki er enn búið að ráða í hlutverk Péturs Pan.