Vildi fara allt aðra leið með víkingamynd en flestir

„Ástæðan fyrir því að við erum að vinna saman er að við höfum báðir áhuga á að birta innri veruleikann í sögunni, í því hvernig fólk hagar sér og upplifir veruleikann.“

Svo mælir listamaðurinn Sigurjón Birgir Sigurðsson, betur þekktur sem Sjón, og vísar í samstarf sitt við leikstjórann og handritshöfundinn Robert Eggers. Saman skrifa þeir handritið að stórmyndinni The Northman og standa tökur á henni þessa dagana.

Sjón var í viðtali við Þórð Inga Jónsson í Lestinni á Rás 1 og segist þar hafa kynnst Eggers yfir laxi í kvöldverðarboði hjá Björk Guðmundsdóttur. Eins og víða hefur verið greint frá fer Björk með hlutverk í kvikmyndinni.

Til í að „mistakast

The Northman skartar ýmsum þekktum andlitum og má búast við þeim Nicole Kidman, Anya Taylor-Joy, Willem Dafoe ásamt Alexander Skarsgård.

Myndin gerist á Íslandi við upphaf 10. aldar og segir í grunninn frá norskum prinsi sem hyggst koma morðingja föður síns fyrir kattarnef. Myndin er framleidd af Lars Knudsen, dönskum framleiðanda, sem hefur látið gott af sér leiða með þekktum hryllingsmyndum á borð við Hereditary og Midsommar.

Robert elskar lax.


Eggers er þekktur fyrir kvikmyndirnar The Witch og The Lighthouse og hafa þær báðar hlotið nær einróma lof gagnrýnenda og vakið athygli víða um heim. Að sögn skáldsins kynntust þeir Eggers skömmu eftir að hann frumsýndi sína fyrstu mynd, The Witch, á Sundance kvikmyndahátíðinni.

„Síðan heyrði ég í honum aftur, sumarið 2017, og þá sagði hann mér að hann væri að undirbúa víkingamynd og spurði hvort ég vildi vera með. Ég sagði já, einfaldlega vegna þess að hann hafði gert The Witch,“ segir Sjón og heldur áfram:

„Ég hefði sennilega ekki viljað gera víkingamynd með neinum öðrum. En af því að ég áttaði mig á því að hann myndi fara allt aðra leið að þessu en flestir sem gera víkingamyndir, þá sagði ég honum að ég væri til í að mistakast að gera víkingamynd með honum.“

Ekki er komin dagsetning á The Northman en gera má ráð fyrir að hún verði frumsýnd á næsta ári.

Frá tökustað í Írlandi.