Viggo hafnaði Hobbitanum

Það er ekki hver sem er sem hafnar hlutverki í risamyndum eins og Hobbitanum, en þó var það einn maður sem gerði einmitt það. Sá maður heitir Viggo Mortensen. 

viggo mortensen

Viggo, sem er 54 ára og gerir nú víðreist til að kynna nýjustu mynd sína Everybody Has a Plan, sem er á spænsku, sagði að rætt hefði verið við hann um að leika Aragorn í Hobbitanum, en það er persónan sem hann lék í Lord of the Rings myndunum.

Eins og kunnugt er þá kemur Aragorn hvergi við sögu í bókinni um Hobbitann eftir J.R.R. Tolkien, en Hobbitinn er forsaga að Lord of the Rings sögunni og gerist 60 árum fyrr.

„Áður en tökur hófust, árið 2008, þá spurði einn af framleiðendunum hvort ég hefði áhuga,“ sagði Mortensen í samtali við breska blaðið The Guardian. „Ég sagði, „þið vitið að Aragorn er ekki í Hobbitanum? Og það munar 60 árum á milli bókanna?“

Eins og þeir sem hafa séð fyrstu Hobbitamyndina vita, þá leika samt nokkrir af aðalleikurum Lord of the Rings myndanna í Hobbitanum, þar á meðal Elijah Wood, sem kemur stuttlega fyrir sem Frodo Baggins ásamt því sem Orlando Bloom mun snúa aftur í hlutverki sínu sem álfaprinsinn Legolas í næstu Hobbitamynd sem verður frumsýnd um næstu jól.