Árni Beinteinn Árnason hefur farið mikinn í íslenskum fjölmiðlaheimi
undanfarin misseri og var m.a. með viðtalsþátt við helstu stjörnur
íslenskrar menningar í Laugardagslögunum sálugu. Hann leikstýrðu fyrir
stuttu sinni fyrstu alvöru stuttmynd að hans sögn, en hún heitir Auga fyrir auga og var frumsýnd fyrir fullu húsi í Háskólabíó 1.maí
síðastliðinn í samstarfi við Senu.
Kvikmyndir.is skellti nokkrum spurningum á kappann og hér er afraksturinn!
Segðu okkur aðeins
frá sjálfum þér og stuttmyndinni sem þú varst að gera.
Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík og þegar við strákarnir
vorum í 10 ára bekk hófum við að gera stutta „sketsa“ á
heimilisupptökuvélina. Þetta vatt upp á
sig og vorið 2006 sendi ég ásamt vinkonu minni mynd í Töku 2006 og unnum við
keppnina. Þá var ég ekkert farinn að
læra að klippa svo allt varð að taka í réttri röð á spóluna. Í framhaldinu fór ég til Marteins í
Kvikmyndaskóla krakkanna og þar lærði ég
að klippa. Næsta mynd, Ekki er allt sem sýnist, vann svo
áhorfendaverðlaun Stuttmyndadaga 2007. Í
millitíðinni lék ég í minni fyrstu kvikmynd, Duggholufólkið Ara
Kristinssonar, og þá áttaði ég mig enn betur á því hversu spennandi og
skemmtileg kvikmyndagerðin er. Ég hef
verið duglegur að leggja fyrir leiklistarlaunin mín síðustu árin og átti orðið ágætan sjóð. Ég sá því fram á að geta fjármagnað
alvöru-stuttmynd, þ.e.a.s. mynd tekna upp á fagmannlegan máta með
kvikmyndagerðarfólki og atvinnuleikurum í fremstu röð en allir fengu að fullu
greitt fyrir sína vinnu við myndina.
Stuttmyndin Auga fyrir auga leit svo dagsins ljós í Háskólabíói fyrsta maí síðastliðinn. Hún er sjálfstætt framhald Ekki er allt sem sýnist og fjallar um
það þegar Gummi strýkur af upptökuheimilinu til þess að hefna sín á Sindra sem
hafði komið upp um hann.
Þú hefur verið mjög
sýnilegur í íslenskum fjölmiðlaheimi undanfarin ár, hvað er það helsta sem þú
hefur unnið að?
Ég byrjaði náttúrlega í leikhúsunum fyrir rúmum þremur árum
og hef verið meira og minna viðloðandi þau síðan. Í vetur var ég til dæmis að leika um hverja
helgi, til skiptis í Gosa í
Borgarleikhúsinu og Skilaboðaskjóðunni
í Þjóðleikhúsinu. Flestir hafa þó
sennilega séð mig í Laugardagslögunum
í vetur.
Hvernig gekk svo að
gera þína fyrstu alvöru stuttmynd?
Vonum framar. Þetta gekk allt eins og í sögu. Veðrið var
eins og pantað fyrir myndina og allir sem komu að henni skiluðu sínu
fullkomlega. Ég hafði enda skipulagt
allt í þaula.
Ertu ekki sáttur við
útkomuna?
Jú, myndin sló í gegn fyrir þann markhóp sem henni var ætlaður
og þjónaði því algjörlega tilgangi sínum. En ekki má gleyma því að þetta er jú mín
fyrsta alvöru mynd svo ég vona að mér hafi farið fram í næstu mynd en tökur á
henni hefjast nú í sumar.
Hver er þín uppáhalds
kvikmynd, leikstjóri og leikari?
Börn Vesturports hafa
alltaf verið á toppnum í mínum huga. Ég
sá hana þrisvar í bíó og dró alla sem ég þekki á hana. Síðan ég sá Börn hefur
Gísli Örn Garðarsson verið minn uppáhaldsleikari.
Hver er þinn helsti
áhrifavaldur þegar kemur að kvikmyndagerð?
Einhver íslenskur?
Ég hef bara ekki horft á nógu margt hingað til og er samasem
alveg ómengaður! Ég horfi eiginlega aldrei á sjónvarp, hef séð mjög fáar
bíómyndir og spila aldrei tölvuleiki. En
ég fer mjög mikið í leikhús og er farinn að fara töluvert oftar í bíó en ég
gerði. Þess vegna hef ég kannski orðið fyrir tiltölulega litlum áhrifum frá
einhverjum ákveðnum hingað til. Hins vegar hefur Ari Kristinsson sem leikstýrði
mér í Duggholufólkinu verið mér innan
handar og kennt mér mikið.
Hvert er svo þitt
næsta verkefni?
Það mun vera söngva-og hryllingsmynd sem ber vinnuheitið Blóðslóð en ég get ekki sagt meira að
svo stöddu.
Hvað á að gera í
framtíðinni, stefnirðu á nám eða vinnu tengda kvikmyndum?
Framtíðin er óráðin. Eitt háskólapróf er lágmark, kannski
bara stingur maður svo af eftir það!

