Kvikmyndastjarnan Bradley Cooper getur nú valið úr hlutverkum, eftir að hafa slegið í gegn í The Hangover, Limitless og A-Team m.a. Nú er hann með augastað á hlutverki sjálfs Lúsifers, eða djöfulsins, í áætlaðri mynd sem Legendary Pictures hyggjast gera eftir 17. aldar kvæðinu Paradise Lost eftir John Milton.
Í myndinni verður fókusinn stilltur á stríðið á milli erkienglanna Mikaels og Lúsífers, en Lúsífer mun í myndinni einnig gefa sér tíma til að freista Adams til að borða eplið fræga, sem varð til þess að Adam og Eva voru rekin úr paradís.
Engin tilboð hafa þó verið undirrituð ennþá en kvikmyndatímaritið Variety segir frá því að Cooper sé mjög spenntur fyrir hlutverkinu og sé byrjaður að undirbúa sig undir það, til dæmis með því að sparka í litla krakka og að þjálfa táninga til að stela úr búðum fyrir sig, eins og Lúsifer myndi gera. Þetta eru reyndar ýkjur, en samningaviðræður eru í það minnsta hafnar.
Nokkrir handritshöfundar hafa komið að handritinu á löngum tíma, þar á meðal Stuart Hazeldine, Lawrence Kasdan og Ryan Condal, sem skrifaði síðasta uppkastið.