Bandaríski leikarinn Ethan Hawke hefur undanfarna daga verið í einangrun í heimahúsum. Hann gaf sér þó tíma fyrir spjall við kvikmyndavefinn IndieWire og átti viðtalið sér stað gegnum Instagram. Hawke fór yfir víðan völl í viðtalinu en leikarinn varð spenntur þegar umræðan snerist að Before-þríleiknum. Segist hann ólmur vilja sjá nýtt innlit til parsins Jesse og Celene (leikin af Julie Delpy) frá kvikmyndagerðarmanninum Richard Linklater.
Þessi svonefndi Before-þríleikur, Before Sunrise (’95), Before Sunset (’04) og nú síðast Before Midnight (’13), vinnur að miklu leyti með framrás tímans, bæði innbyrðis í hverri mynd, en líka á heildina litið, þar sem níu ár líða á milli myndanna og Linklater nýtir sér það innan kvikmyndanna til að hitta persónurnar sínar á níu ára fresti og athuga hvernig lífið gengur hjá þeim. Allar þrjár myndirnar hafa fengið frábæra dóma og almennt jákvæðar viðtökur áhorfenda.
„Mér þætti ótrúlega fyndið að sjá þau [Jesse og Celene] í heimasóttkví í næstu mynd,“ segir Hawke og telur ýmislegt vera hægt að vinna úr með parið á meðan heimsfaraldri stendur.
„Ef það er einhver manneskja sem getur fengið heiminn til að hlæja í öllu þessu ástandi núna, þá er það Julie [Delpy]. Ég get ekki ímyndað mér hvað hún myndi segja um þetta allt. Linklater er líka algjör vísindamaður og hefur eflaust ýmislegt að segja. Kannski ætti næsta mynd að gerast á Ítalíu. Við ættum bara að steypa okkur beint í eldinn og Jesse og Celene geta verið syngjandi með öllu fólkinu á svölunum.“
Hakwe er þó ekki bjartsýnn að næsta „Before-“ mynd haldi í útgáfuhefð hinna myndanna. „Hinar þrjár gerast allar á níu ára fresti. Fjórða myndin mun ekki fylgja þeirri stefnu. Linklater myndi vilja fara í aðra átt, kannski stuttmynd sem gerist nokkrum árum eftir Midnight eða kvikmynd sem eftir tuttugu ár.“