Universal segir: Wolfman var hræðileg!

Ekki mörgum kvikmyndastúdíóum hefur gengið jafn illa og Universal að undanförnu, en búið er að dæla alls kyns fjármagni í myndir sem hafa engan veginn komið út í plús. Þar má nefna myndir eins og The Wolfman, Land of the Lost, Scott Pilgrim vs. The World og Cowboys & Aliens núna seinast svo eitthvað sé nefnt. Formaður Universal, Ron Meyer, var í viðtali við Movieline þegar hann ákvað að vera fullkomlega hreinskilinn um akkúrat þessar myndir. Og það er aldrei leiðinlegt þegar hátt settir hausar í Hollywood segja það sem þeim finnst í alvöru.

„Við gerum fullt af ömurlegum myndum,“ segir Meyer, „það fer alveg með mig.“ Hann tekur það einnig fram að þó svo að það sé gaman að búa til myndir sem vinna verðlaun og hljóta lof gagnrýnenda, þá er það ekki það sem skiptir mestu máli fyrir honum.
„Það er æðislegt þegar það gerist, og ég elska United 93 sem við gerðum, og auðvitað viljum við öll búa til myndir sem vinna verðlaun, græða pening og hitta í mark hjá fjöldanum. En þetta snýst allt um að græða pening fyrst og fremst,“ segir Meyer.

Síðan fer bransakallinn að telja upp þessar undanförnu flopp-myndir og segir hvers vegna honum finnst þær hafa floppað. „Við reynum alltaf að búa til góðar myndir þótt það heppnist ekki alltaf,“ segir hann. „Ein sú versta sem við gerðum var The Wolfman. Ég myndi segja að hún og Babe 2 séu verstu myndirnar sem við höfum gert.“ Meyer segir að The Wolfman hafi ekki hitt í mark hjá áhorfendum vegna þess að ekkert við hana gekk upp. „Handritið var drasl, leikstjórinn var rangur og Benicio (Del Toro) var alveg að drulla á sig þarna. Hræðileg mynd.“

Í kjölfarið á þessu var hann spurður beint hvað honum fannst um hinar myndirnar sem voru taldar upp.

„Land of the Lost? Hún var bara sori. Engin afsökun fyrir hana.“

„Cowboys & Aliens? Hún var bara ekki nógu góð. Fullt af skemmtilegu fólki á bakvið hana, en þetta var svakalega bjánaleg miðlungsmynd með asnalegum geimverum.“

Meyer segir síðan að af öllu því sem feilaði í miðasölunni, að þá var Scott Pilgrim sú eina sem hann er stoltur af. „Scott Pilgrim var reyndar góð mynd. Samt fór enginn á hana! Enginn sagði heldur vinum sínum frá henni. Slíkt gerist,“ segir hann. „Cowboys & Aliens átti ekkert betur skilið heldur en hún fékk, Land of the Lost ekki heldur, en Scott Pilgrim átti svo sannarlega betra skilið. Hún virtist bara ekki hitta í mark hjá breiðum hópum. En hún var ekki dýr svo þetta var ekki stórt tap. Cowboys var hins vegar stórt tap, og Lost líka. Við klikkuðum alveg, og þetta sýnir bara að það er aldrei víst að góð mynd verði til þrátt fyrir að þú smalir saman haug af fagmönnum.“