Bandaríska tennisstjarnan John McEnroe, sem vann á sínum tíma sjö stórmót í tennis, er undrandi yfir nýrri ævisögulegri bíómynd, Borg vs McEnroe, sem verið er að gera um viðureignir hans og sænska tennisleikarans Björn Borg, á ofanverðum áttunda áratug síðustu aldar og snemma á þeim níunda.
Í myndinni, sem er nú þegar í tökum, fer Shia LaBeauf með hlutverk McEnroe og íslenski leikarinn Sverrir Guðnason fer með hlutverk Borg.
„Ég veit ekki hvort þeir ætla að klára myndina án þess að ræða nokkuð við mig eða Björn,“ sagði McEnroe. „Ég hef ekki séð neitt, og þeir eru nú þegar byrjaðir að taka upp myndina,“ sagði McEnroe við Guardian.
„Það er eins og það sé enginn áhugi á að tala við mig. Ég veit ekki hvernig hægt er að gera þetta án þess að hitta mig nokkurn tímann. Kannski er hægt að ræða við einhverja vini mína. Ég man varla hvernig ég var fyrir 36 árum síðan, þegar ég var 21 árs. Hún gæti orðið skemmtileg. Ef hún verður góð, þá verður það frábært. Vonum það besta.“
McEnroe sagði að sálfræðilega séð, þá gæti LaBeouf passað vel í hlutverkið, en McEnroe var þekktur fyrir að missa reglulega stjórn á skapi sínu inni á vellinum. „Hann er víst sagður vera léttgeggjaður, þannig að það gæti gengið.“ McEnroe sagði hinsvegar að hvað varðar líkamsburði og tennishæfileika, þá gæti ýmislegt vantað upp á. „Bæði hann og Guðnason, virðast vera leikarar sem ekki leika tennis. Þú sérð þessa náunga, þeir mæta og vita varla hvernig á að halda á spaðanum.“
Tennisstjarnan sagði að hann ætlaði að ekki að dæma myndina fyrr en hann myndi sjá hana, en hann væri þó ekki vongóður. „Ég hef aldrei séð góða tennismynd. Þær hafa allar verið hræðilegar.“