Umfjöllun: Harry Potter and the Half-Blood Prince

Eftirfarandi umfjöllun er SPOILER-laus.

„The Empire Strikes Back fyrir Harry Potter-seríuna“

Þeir sem hafa lesið umfjallanir mínar um fyrri myndirnar ættu að hafa
tekið eftir því að ég er fyrst og fremst harður Harry Potter-fíkill
(sem gerir mig afskaplega hlutdrægan) og deili engan veginn sömu
fordómum gagnvart myndunum og margir strangtrúaðir lesendur gera. Þessi
kvikmyndasería hefur þróast glæsilega með hverri mynd og get ég
ómögulega sagt annað en að ég hafi skemmt mér konunglega yfir þeim
öllum. Fyrstu tvær eru reyndar á mörkunum, en þetta hefur farið mikið
batnandi síðan, jafnvel miklu meira svo en ég þorði fyrst að ímynda mér.

David
Yates sest aftur í leikstjórastólinn (og það lítur út fyrir að hann
þrauki út til að klára seríuna) og því er ég afar feginn, enda fannst
mér hann standa sig frábærlega með fimmtu myndina, Order of the
Phoenix
. Sú mynd var of hröð fyrir suma, sem er ekki skrítið því það er
hálfgerður glæpur í augum aðdáenda að laga stærstu bókina að stystu
bíómyndinni. Ég skil pirringinn en sjálfum fannst mér hún svínvirka og
flæða ótrúlega vel. Hún hafði í sér allan pakkann: hasar, spennu,
húmor, smá drama, minnisstæð persónusamskipti og öflugt skemmtanagildi.

Þessi
sjötta, Half-Blood Prince, er að mörgu leyti svipuð þegar
heildarupplifunin er skoðuð, nema kostirnir hafa enn eitt skiptið
stokkið upp um nokkur fet. Það er að vísu minna af hasar en dramað er
fimm sinnum sterkara í staðinn. Húmorinn er líka betri, sem og
persónusköpunin. Við fáum loks að sjá Harry, Ron, Hermione og co. hegða
sér eins og alvöru unglingar gera og mér finnst í raun æðislegt hvernig
hér er sögð einföld saga hormónadrifinna ungmenna á bak við epíska,
myrka ævintýrið sem verið er að byggja upp. Þessi mynd, ásamt þeirri
síðustu, leggur meiri áherslu á þróun/tengsl persónanna og hvernig þær
takast á við deilur, vinabönd og allt þar á milli. Já, horfinn er þessi
litli Harry sem leysti ráðgátur og þrautir og kominn er flókinn, ungur
maður sem dílar við erfiðar ákvarðnir á hverjum degi og þráir ekkert
meira en eðlilegt líf, og kærustu.

Það fylgir alltaf sú áhætta
þegar leikstjóri snýr aftur að kvikmyndaseríu að áhorfandinn sjái sömu
hlutina aftur. Yates greinilega þekkir þetta og forðast það sem betur
fer að kópera stílinn úr síðustu mynd. Í staðinn kemur hann með mynd
sem ekki aðeins lítur öðruvísi út, heldur er fílingurinn allt annar
(meira svona „fullorðins,“ ef svo má orða það). Half-Blood Prince
hefur, þótt furðulegt sé að segja það, talsvert minna skemmtanagildi en
flestar hinar myndirnar, en hún er engu að síður sú allra besta hvað
handrit, stíl og innihald varðar. Hún hélt mér líka brosandi og í
réttum fíling allan tímann.

Hvort sem rætt er um táningadramað,
vandræðalegheit eða önnur fyndin atvik (eins og þegar Harry fer í
Liquid Luck-vímuna. KLASSÍSKT!) þá er auðséð hvað Yates hefur gott auga
fyrir óþvinguðum húmor. Hann er líka meistari í tón, því – eins og
aðdáendur muna – þá er sagan einnig verulega myrk og pínu þung í
endann. Skiptingin milli húmors og alvarleika er nánast óaðfinnanleg.
Svo inn á milli finnast m.a.s. fáeinar krúttlegar en undarlega fallegar
senur inn á milli og spilar rómantíkin svolítinn þátt í þeim. Án þess
að hljóma eins og fjórtán ára gelgja þá hittu ákveðin atriði (segi ekki
hvaða) beint í hjartastað. Myndin skiptir samt heldur betur um gír
seinasta hálftímann og nær til manns á allt öðru stigi. Alveg frá því
þegar Harry og Dumbledore fara í hellinn til lokasenanna í turninum er
maður haldinn í heljargreipum með brjálæðislega öflugum atriðum ásamt
endi sem skilur engan eftir ósnortinn. Endilega verið viðbúin að sjúga
aðeins upp í nefið. Þið líka strákar.

Unga fólkið, eitt sinn
krakkar, er enn að batna með hverri mynd. Daniel Radcliffe og Rupert
Grint hreint út sagt brillera og Emma Watson, sem hefur ávallt haltrað
á eftir þeim í leikhæfileikum, stendur sig óvenjulega vel. Það er ein
tiltekin gráturssena með henni þar sem hún slær á alla réttu strengina,
þá gallalaust. Bonnie Wright, sem leikur Ginny, er sömuleiðis afar
heillandi og Tom Felton treður loks almennilegum persónuleika í Malfoy
og gerir miklu meira en einungis að rífa kjaft og hegða sér eins og
smástelpa. Reynsluboltarnir Alan Rickman, Michael Gambon og Jim
Broadbent (enn ein viðbótin í leikarahlaðborðið) valda ekki heldur
vonbrigðum. Ég var sérstaklega ánægður með Gambon í þetta sinn þar sem
hann sýnir nýjar og töluvert skuggalegri hliðar á Dumbledore sem hafa
ekki sést áður.

Útlitslega þótti mér þessi Potter-mynd líka bera
af öllum hinum. Kvikmyndatakan er ein sú besta sem hefur sést síðan
Alfonso Cuarón var við stjórnvölinn. Stíllinn, ásamt passlega
afmarkaðri litanotkun, er fullkominn og betrumbætir andrúmsloftið
heilmikið. Tónlistin fylgir andrúmsloftinu sterkt eftir og sveiflast á
milli þess að vera létt og dramatísk. Ég skal alveg ganga svo langt með
að segja að þessi tónlist sé sú flottasta sem heyrst hefur í allri
seríunni. Með fullri virðingu fyrir John Williams þá verð ég að gefa
Nicholas Hooper heiðurinn á því að fullkomlega negla tónlistina með að
gera hana óhefðbundna en almennt töfrandi og áhrifaríka án þess að
maður finni nokkurn tímann fyrir væmni. Tæknibrellurnar eru að
sjálfsögðu stórfenglegar og finnast jafnvel í minna magni en áður. Þær
eru aldrei mjólkaðar að óþörfu og finnst hvergi nokkur tölvugerður
rammi án þess að hann sé partur af frásögninni eða umhverfinu. Meira að
segja eru Quidditch-senur notaðar sem hluti af persónusköpun Rons, í
stað þess að vera uppfylling eða brellusýning handa krökkunum. Vel gert.

Mér
finnst þó ekki ólíklegt að sumir aðdáendur falli í gamla farið og
tryllist yfir breytingum (meira en áður!) því handritshöfundurinn Steve
Kloves fiktar mun meira með efnið en fyrr. Persónulega sé ég engan
skaða gerðan og finnst sagan viðhalda kjarna bókarinnar mátulega vel,
en kannski segi ég það bara vegna þess að bók nr. 6 var aldrei í miklu
uppáhaldi hjá mér til að byrja með. Samt sem áður þurfa lesendur að sjá
það að bókin var alls ekki kvikmyndavæn eins og hún var skrifuð og
uppbyggð. Ég sá hana alltaf sem bara stöðugt upplýsingaflæði sem fyllti
í eyðurnar á seríunni og fannst hún vera meira upphitun að endalokunum
frekar en stök eining. Kloves, aftur á móti, í gegnum ýmsar breytingar
sér ákaflega vel um að bragðbæta söguna með vel úthugsuðum uppfyllingum
og þar á meðal fáránlega flottu upphafsatriði. Myndin krefst þess
heldur ekki, annað en sú fimmta, að þú hafir séð allar fyrri myndirnar
því hún meðhöndlar upplýsingarnar á ljúfum hraða án þess að vitna
sífellt í hin ævintýrin.

Harry Potter and the Half-Blood Prince
þótti mér vera frábær fantasía, en samt er hún eitthvað svo miklu meira
en það. Þetta er virkilega vönduð, lagskipt og þroskuð mynd sem á ekki
skilið minna lof að mínu mati heldur en fyrstu tvær Lord of the
Rings-myndirnar. Það er auðvitað svekkjandi á vissan hátt að hún hafi
engan almennilegan endi og skilji mann eftir í lausu lofti með fullt af
ósvöruðum spurningum og niðurdrepandi endi. Þegar uppi er staðið er
náttúrulega erfitt að sjá hana sem annað en upphitun fyrir það sem koma
skal. En hvílík upphitun!

9/10

Hér fyrir neðan má finna tvo erlenda dóma um myndina:

http://www.variety.com/review/VE1117940610.html?categoryid=31&cs=1

http://boxoffice.com/reviews/2009/07/harry-potter-and-the-half-bloo.php