Eftirfarandi umfjöllun er spoiler-laus!
„Betri en Borat. Cohen er schnillingur!“
Þið sem hélduð að The Hangover væri það fyndnasta sem kæmi út árið 2009, bíðið bara og sjáið hvað Brüno gerir af sér hérna.
Í
fyrstu hélt ég að Sacha Baron Cohen væri að teygja lopann að óþörfu með
að gera það sama við Brüno-karakterinn sinn og hann gerði við Borat,
þar sem hann naut vinsælda út um allan heim með einhverri djörfustu
„mocumentary“ gamanmynd síðari ára. Ég sá eiginlega bara engan tilgang
með þessari mynd, enda átti ég erfitt með að telja manninum trú um að
geta toppað þau ósmekklegheit sem hann bauð upp á fyrir þremur árum
síðan. Ég meina, halló! Hann slóst við nakinn feitan mann í
69-stellingu og elti hann um á hóteli haldandi á gúmmíhnefa! Svo aðeins
eitthvað sé nefnt. Ef Cohen gæti fundið upp á einhverju grófara til að
eiga þátt í þá þyrfti maður að efast stórlega um geðheilsu hans.
Viti menn, honum tókst það…
Kvikmyndin
Brüno fer stundum svo langt yfir strikið að viðkvæmt fólk gæti þurft á
léttri áfallahjálp að halda eftir að hafa horft á hana. Það er
vissulega ekkert nýtt við það að horfa á fólk ganga langt og leggja líf
sitt í hættu fyrir grínið (Jackass, Dirty Sanchez…) en Cohen er einn
af örfáum sem nær að vera alltaf ferskur og fyndinn í sjokkhúmornum.
Hann dettur aldrei úr karakter og finnur ávallt nýjar leiðir til að
skemmta áhorfendum sem er drullusama um velsæmismörk.
Ég fílaði
þessa aðeins betur heldur en Borat. Af hverju? Því hún hélt betra flæði
og missti aldrei nokkurn tímann dampinn. Alveg frá Üniversal-lógóinu í
byrjun til söngatriðisins í lokin var ég að veltast úr hlátri um allt
gólf og stöku sinnum fékk ég m.a.s. tár í augun, sem gerist alls ekki
oft. Sjokk-factorinn hittir nánast alltaf í mark. Húmorinn er aldrei of
þvingaður eða úr takti við það sem myndin reynir að gera. Hér um bil
hvert einasta atriði var annaðhvort sprenghlægilegt eða dásamlega
vandræðalegt. Engu að síður átti ég erfitt með að glotta ekki yfir öllu
ruglinu.
Eins og í Borat er maður aldrei of viss hvenær senur
eru sviðsettar eða raunverulegar, en maður er ekki lengi að sjá hvað
Cohen leggur heilmikið á sig í titilhlutverkinu. Það er óvenju vægt til
orða tekið að segja að hann fari á kostum. Án hans væri auðvitað engin
mynd. Hann lætur það reyndar í friði að glíma við feita menn, en í
staðin eru dreifð atriði út alla myndina þar sem hann veldur fimmfalt
meiri usla og gerir allt snarbrjálað í kringum sig. Meira að segja fann
maður fyrir því hversu mikið hann er í lífshættu núna, enda maðurinn
eltur af hópum um götur og í m.a.s. einu atriðinu er kastaður stóll úr
góðri fjarlægð í áttina að honum.
Borat var auðvitað ferskari
fyrir sinn tíma og mun hún alltaf hafa það fram yfir þessa mynd, sem
meira eða minna fylgir bara sömu formúlu. Það er heldur ekki hægt að
hrósa ræmunni fyrir innihaldsríkan söguþráð, frekar en hinni. En eins
og kom fram þá skemmti ég mér aðeins betur á Brüno og fannst hún einnig
hiklaust bjóða upp á hressari og öflugri lokasprett. Pamelu
Anderson-atriðið gufar hreinlega bara upp í samanburði við endasenurnar
hérna, þar sem tónlist Celine Dion er ljúflega sett undir.
Ef
Brüno fær þig ekki til þess að hneykslast, líta undan eða tauta „ó,
nei!“ reglulega út þessar 80 mínútur, þá er hún ekki að þjóna tilgangi
sínum. Eins mikið og ég freistast til að telja upp nokkur brilliant
atriði þá ætla ég að sleppa því og leyfa áhugasömum að tékka á þeim
sjálf. Þessi mynd er svo röng, svo óþægileg, svo kjarkmikil en samt svo
suddalega fyndin að hálfa væri nóg, og því er ómögulegt að mæla ekki
með henni.
8/10
Myndin er frumsýnd á miðvikudaginn.

