Tvöfaldur Óskarsverðlaunahafi heiðursgestur RIFF

Tvöfaldi Óskarsverðlaunahafinn, tékkneski kvikmyndaleikstjórinn Milos Forman fær heiðursverðlaun Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík í ár, og mun hann koma til landsins vegna hátíðarinnar.  Af þessu tilefni verða vel valdar
myndir leikstjórans sýndar á hátíðinni. Ennfremur mun hann hitta íslenska
áhorfendur á hátíðinni og sitja fyrir svörum við það tækifæri.

Í tilkynningu frá RIFF segir að Milos Forman sé tvímælalaust einn fremsti
kvikmyndaleikstjóri samtímans, einn fjögurra núlifandi leikstjóra sem hefur
hlotið óskarsverðlaun fyrir leikstjórn tvisvar (hinir eru Clint Eastwood,
Oliver Stone og Steven Spielberg), en þau hlaut hann fyrir Gaukshreiðrið (One Flew Over
the Cuckoo’s Nest
) og Amadeus. Þá
hefur hann einnig leikstýrt myndum á borð við Man on the Moon, The People
vs. Larry Flint
, Hair og Valmont, en þessum myndum leikstýrði
hann öllum eftir að hann flutti búferlum til Bandaríkjanna undir lok sjöunda
áratugarins.

 

„Þær myndir sem hann leikstýrði í heimalandinu,
Tékkóslóvakíu, fyrir þann tíma eru þó margar ekki síður merkilegar, enda var
Forman lykilmaður í merkilegri bylgju tékkneskra leikstjóra á sjöunda
áratugnum. Þá leikstýrði hann myndum á borð við Svarta-Pétur (Cerný Petr),
Ástir ljósku (Lásky jedné plavovlásky) og Slökkviðlisveislan
(Horí, má panenko).

 

Forman fæddist árið 1932, skýrður Jan Tomás Forman.
Foreldrar hans létust bæði í fangabúðum í Auschwitz, en þangað var faðir hans
sendur fyrir að dreifa bönnuðum bókum. Ritskoðun átti einmitt eftir að verða
eitt af helstu leiðarstefjunum í verkum Formans, besta dæmið um það er
sjálfsagt hann tekur sér stöðu með klámkóngnum Larry Flint í The People vs. Larry Flint.

 

En þrátt fyrir að vera orðinn 77 ára gamall er Forman enn í
fullu fjöri og vinnur nú að myndinni The
Ghost of Munich
– sem gerist þegar bandamenn fórnuðu Tékkóslóvakíu í
samningum við nasista til að verja friðinn – og þar vinnur Forman handritið með
fyrrum skólafélaga sínum, leikskáldinu og forsetanum fyrrverandi Václav Havel,“ segir í tilkynningu RIFF.