Eins og við sögðum frá á dögunum þá verður mynd Ragnars Bragasonar, Málmhaus, heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto sem hefst þann 5. september nk. Í nýrri tilkynningu kemur fram að Málmhaus sé ekki eina íslenska myndin sem verður í Toronto heldur hefur myndin This is Sanlitun eftir Róbert I. Douglas einnig verið valin til þátttöku. Báðar myndirnar verða hluti af „Contemporary World Cinema“ flokki hátíðarinnar. Hátíðin mun fara fram í Toronto í Kanada frá 5. til 15. september.
Í This is Sanlitun er Gary staddur í Peking til að slá í gegn. Eftir að honum mistekst að ganga í augun á kínverskum fjárfestum fer hann að kenna ensku. Á sama tíma reynir óhæfi leiðbeinandinn Frank að kenna Gary á lífið. Þegar kínversk fyrrverandi eiginkona Gary og sonur þeirra koma til skjalanna, sést það betur og betur af hverju Gary hefur í hyggju að vera um kyrrt í Peking.
Róbert I. Douglas leikstýrir This is Sanlitun og er einn handritshöfunda ásamt Carlos Ottery og Christopher Loton. Framleiðendur eru Maureen Sherrard, Hlín Jóhannesdóttir og Róbert I. Douglas. Meðframleiðandi er Ai Wan. Í aðalhlutverkum eru Carlos Ottery, Ai Wan, Hu Gaoxiang, Christopher Loton og Cromwell Cheung. Kvikmyndataka er í höndum Zuxiang Zhao og Róbert I. Douglas og Þór Matthíasson klippa myndina.
Málmhaus segir frá Heru Karlsdóttur, en æska hennar er áhyggjulaus í sveitinni þar til harmleikur dynur yfir. Eldri bróðir hennar deyr af slysförum og Hera kennir sjálfri sér um dauða hans. Í sorginni finnur hún sáluhjáp í þungarokki og dreymir um að verða rokkstjarna.
Ragnar Bragason leikstýrir Málmhaus og er jafnframt handritshöfundur hennar. Framleiðendur eru Davíð Óskar Ólafsson og Árni Filipusson og meðframleiðendur eru hin norska Gudny Hummelvoll og Ragnar Bragason. Í aðalhlutverkum eru Þorbjörg Helga Dýrfjörð, Ingvar E. Sigurðsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Jörundur Ragnarsson og Hannes Óli Ágústsson. Kvikmyndataka er í höndum Ágústs Jakobssonar, Pétur Ben flytur tónlist myndarinnar og Valdís Óskarsdóttir klippir myndina.
Nánari upplýsingar um Toronto kvikmyndahátíðina má nálgast hér.