Í dag er von á fyrstu stiklu fyrir nýjustu teiknimynd Illumination og Universal Pictures, um Trölla sem stal jólunum, eða The Grinch, eins og myndin heitir á frummálinu. Myndin kemur í bíó hér á Íslandi þann 9. nóvember á þessu ári.
Í gær var birt fyrsta plakatið fyrir myndina, og má sjá það hér neðar í fréttinni. Það er breski Dr. Strange og Sherlock Holmes leikarinn Benedict Cumberbatch sem leikur Grinch. Á plakatinu með Trölla er hundurinn hans, Max.
Grinch býr einn í helli á Crumpet fjalli, með sínum hundtrygga rakka Max. Grinch reynir að blanda sem minnst geði við nágranna sína í Who-ville, en fer þangað endrum og sinnum til að ná sér í mat.
Um hver jól trufla þeir tilveru hans með sífellt stærri, bjartari og háværari hátíðahöldum. Þegar bæjarbúar tilkynna í eitt skiptið að þeir ætli sér nú að hafa hátíðarhöldin þrisvar sinnum stærri og meiri en áður, þá telur Trölli að eina leiðin til að þagga niður í fólkinu og fá frið, sé að stela Jólunum. Hann ákveður því að þykjast vera Jólasveinninn á aðfangadagskvöld og framkvæma sína lymskulegu áætlun. Á sama tíma ákveður stúlkan Cindy-Lou Who, sem er að springa úr hátíðarskapi, að fanga Jólasveininn þegar hann kemur í bæinn, til að geta sýnt honum þakklæti. En eftir því sem Jólin færast nær, þá eru meiri líkur á að fyrirætlanir Trölla og Cindy-Lou rekist á. Mun Cindy-Lou ná að hitta Jólasveininn? Mun Tröllin ná að þagga niður í jólahátíðinni í eitt skipti fyrir öll?
Sjáðu nýja plakatið hér fyrir neðan: