Tröll skáka veiðiferðina – 65 manns á Mentor

Teiknimyndin Trolls World Tour flaug beint í efsta sæti íslenska aðsóknarlistans, en kvikmyndaaðsókn hefur hægt og rólega farið vaxandi með hverju viku síðan bíóin opnuðu aftur.

Eftir ellefu helgar í sýningum er Síðasta veiðiferðin nú komin í annað sætið en gamanmyndin hafði verið efst frá frumsýningu í mars, með tilliti til þess að kvikmyndahúsin lokuðu þann 24. mars til 4. maí. Heildarfjöldi sýningargesta á veiðiferðinni nemur nú rúmlega 27 þúsund manns og voru alls tæpir 1400 gestir sem sáu myndina um helgina.

Í þriðja og fjórða sæti listans eru gamanmyndin My Spy og spennutryllirinn The Postcard Killings. Lengri útgáfa kvikmyndarinnar The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring kom í almennar sýningar á miðvikudaginn og fór í 5. sætið með tæplega 800 manna aðsókn. Má líka geta þess að rómantíski tryllirinn Ghost lenti í kvikmyndahúsum á dögunum, íslenskum Patrick Swayze-unnendum til mikillar ánægju, og fór í 13. sæti listans.

Íslenska gamanmyndin Mentor var einnig frumsýnd um helgina og fór í 9. sætið. Reiknað er með að tæplega 400 manns hafi séð þá mynd með forsýningum en um helgina voru 65 manns sem borguðu sig inn á myndina samkvæmt tölum FRÍSK.

Mentor er nýjasta mynd Sigurðar Antons Friðþjófssonar (Webcam, Snjór og Salóme) og fjallar um unglingsstúlkuna Betu sem skráir sig í uppistandskeppni þrátt fyrir að hafa aldrei stigið á svið. Hún biður grínistann Húgó sem vann sömu keppni tíu árum áður um aðstoð. Í kjölfarið veikist Húgó af fortíðarþrá, á meðan Beta reynir að sigrast á óörygginu sínu.

Þau Sonja Valdín og Þórhallur Þórhallsson fara með helstu hlutverkin í myndinni.