Transformers kærð í Kína

Eigendur kínversks útivistarsvæðis hafa kært framleiðendur nýju Transformers myndarinnar , þeirrar fjórðu í röðinni, af því að í myndinni sést ekki vörumerki ( logo ) garðsins. Frá þessu er sagt á vefsíðu japanska dagblaðsins Japan Today.

TRANSFORMERS: AGE OF EXTINCTION

Transformers myndirnar eru geysivinsælar í Kína, og kínversk fyrirtæki, allt frá mjólkurbúum til banka, hafa keppst við koma vörum sínum fyrir í myndinni. The Chongqing Wulong Karst Tourism Group, sem rekur svæði með gljúfrum og hellum í suðvestur Kína þar sem myndaðar voru nokkrar senur í myndina, segja að búið hafi verið að semja um að vörumerki svæðisins myndi sjást í myndinni.

Fyrirtækið fer fram á að Paramount Pictures og kínverskur samstarfsaðili fyrirtækisins, greiði því rúmlega 20 milljónir Bandaríkjadala í bætur, að því er fram kemur í hinu ríkisrekna dagblaði China Daily. „Fólk sem aldrei hefur komið til Chongqing mun ekki átta sig á að þetta er Wulong sem birtist í myndinni, vegna þess að framleiðendur klikkuðu á að láta merki svæðisins birtast í myndinni,“ segir Li Chu, markaðsstjóri fyrirtækisins, í samtali við kínverska dagblaðið.

Starfsmaður Chongqing réttarins sagði AFP fréttastofunni að Wulong hefði lagt fram kæruna á þriðjudaginn síðasta, en rétturinn myndi ekki taka afstöðu til kærunnar fyrr en í næstu viku. Samstarfsaðili Paramount, kínverska félagið m1905.com, sagði í yfirlýsingu á vefsíðu sinni að það „harmaði“ að vörumerki Wulong hefði vantað, en ástæðan væri misskilningur.

Transformers: Age of Extinction er tekjuhæsta bíómynd allra tíma í Kína en tekjur af myndinni eru komnar í meira en 280 milljónir dala nú þegar, samkvæmt The Hollywood Reporter. Myndin verður frumsýnd í Japan 8. ágúst nk.