Toy Story 4 saga og nýr leikstjóri

Josh Cooley hefur verið hækkaður í tign í teiknimyndinni Toy Story 4, úr því að vera aðstoðarleikstjóri upp í að vera leikstjóri. John Lassiter, yfirmaður teiknimyndamála hjá Disney, tilkynnti þetta í pallborðsumræðum á D23 ráðstefnu Disney á föstudaginn.

Lasseter, sem sjálfur leikstýrði fyrstu tveimur Toy Story myndunum og lítur á myndirnar sem eitt af því sem stendur hjarta hans næst, átti upphaflega að leikstýra myndinni, með Cooley sér við hlið. En nú mun Lasseter verða framleiðandi, og Cooley, sem hefur verið að klífa upp metorðastigann hjá Pixar teiknimyndafyrirtækinu, sem Disney á, síðustu 10 ár, mun nú takast á við verkefnið sem aðalmaðurinn.

 

Því miður er enn lítið vitað um söguþráð myndarinnar, og í myndabandi sem sýnt var á ráðstefnunni kom fátt nýtt markvert í ljós, þó að ýmsar nýjar aukapersónur hafi verið kynntar til leiks.

Eitt var það þó sem gaf til kynna hvert sagan í myndinni myndi stefna, en það var þegar Cooley minntist á það að hann og samstarfsfélagar, væru mjög uppteknir á ferðalagi í húsbíl, sem gaf til kynna að fjórða myndin myndi gerast í sumarfríi hjá fjölskyldu.

Að öðru leiti, eins og áður hefur komið fram, þá mun myndin verða ástarsaga þeirra Woody og Bo Peep, en á myndinni hér fyrir neðan sjást þau skötuhjú á góðri stundu.

Myndin er væntanleg í bíó árið 2019.