Topp notendur 2010

Árið 2010 hefur verið viðburðaríkt hér á Kvikmyndir.is og er það ykkur notendum að þakka. Síðan er að sjálfsögðu mjög yfirgripsmikil, allt frá því að við höldum forsýningar og stöndum fyrir getraunum og leikjum, að því að birta sýningatíma, segja fréttir og margt, margt fleira. Ein helsta sérstaða síðunnar er hinn gríðarlegi kvikmyndagagnagrunnur sem hefur verið í vinnslu alveg frá því að síðan var stofnuð. Fyrir tveim árum byrjuðum við að gefa notendum möguleika á að senda inn viðbætur og leiðréttingar í gagnagrunninn. Og til að gera upp árið 2010 langar mig að koma með topplista yfir þá notendur sem eru búnir að vera duglegastir við að senda viðbætur og gera leiðréttingar á síðasta ári.
Fyrst ber að nefna breytingar, en þá er átt við orðsendingu senda frá ákveðinni bíómynd sem er þegar í gagnagrunninum. Allir skráðir notendur geta sent inn breytingu með því að smella á „breyta upplýsingum“. Alls hafa 20 notendur notað þennann möguleika og sent inn 632 breytingar. Ein sú fyrsta var að Quentin Tarantino hafi leikið í From Dusk Till Dawn. Fyrir utan leikara eru notendur helst að bæta við trailerum, plakötum og lengd á mynd. Topp 4 notendurnir eru:

1. Bjarni Gautur (365 breytingar)
2. Ágúst Ingi (138 breytingar)
3. Haraldur Örn Arnarson (50 breytingar)
4. Sölvi Sigurður (47 breytingar)

Það sem hefur hinsvegar verið vinsælast er að bæta við bíómynd sem hefur ekki verið til í gagnagrunninum fyrir. Skemmtilegast er þegar notendur eru að bæta inn frægum myndum sem ættu fyrir löngu að vera komnar í gagnagrunninn. Ég skammast mín til dæmis eiginlega fyrir að ein uppáhalds bíómyndin mín, The Blue Lagoon , var ekki í gagnagrunninum fyrr en að Ágúst Ingi bætti henni við og þökkum við honum kærlega fyrir það. Alls var 642 bíómyndum bætt við gagnagrunninn á árinu af 53 notendum. Auk þess bættu stjórnendur síðunnar við 480 bíómyndum og því telur gagnagrunnurinn nú yfir 6.500 kvikmyndir. Þannig sést að notendur eru strax farnir að verða afkastameiri en stjórnendur síðunnar. Topp 5 notendurnir eru:
1. Bjarni Gautur (274 bíómyndir)
2. Ágúst Ingi (191 bíómynd)
3. Daníel Ágúst Gautason (40 bíómyndir)
4. Jónas Hauksson (17 bíómyndir)
5. Sölvi Sigurður (15 bíómyndir)

En það sem er líklega tímafrekasta vinnan er að skrifa umfjallanir. Að skrifa (og lesa) umfjallanir á Kvikmyndir.is hefur verið sterkur þáttur í bíómenningu íslendinga í mörg ár. Og hafa jafnvel þjóðþekktir einstaklingar gert grín að því.
Alls skrifuðu 61 notendur 375 umfjallanir (ekki meðtaldar 112 umfjöllun frá Tomma og 19 frá mér) og eru þær því orðnar 14.674 talsins!
Topp 6 notendurnir á síðasta ári eru:

1. Sæunn Gísladóttir (60 umfjallanir)
2. Jónas Hauksson (48 umfjallanir)
3. Daníel Ágúst Gautason (44 umfjallanir)
4. Heimir Bjarnason (37 umfjallanir)
5. Ívar Jóhann Arnarson (27 umfjallanir)
6. Sölvi Sigurður (26 umfjallanir)

Við viljum sérstaklega óska Bjarna, Ágústi, Sölva og Daníel til hamingju með að komast á fleiri en einn lista.

Fyrir hönd stjórnenda hér á kvikmyndir.is óska ég notendum gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári.

Eysteinn Guðni Guðnason

Stikk: