Tökur hafnar á Top Gun: Maverick

Þrjátíu og tveimur árum eftir að Tom Cruise fór með leiftuhraða upp á stjörnuhimininn í flugmyndinni Top Gun í leikstjórn Tony Scott, þá hefur Cruise nú snúið aftur í flugstjórnarklefann í hlutverki orrustuflugmannsins Maverick, mörgum aðdáandanum til mikillar gleði. Nýja myndin á að heita Top Gun: Maverick, en Cruise staðfesti á Instagram reikningi sínum að tökur væru hafnar.

Tom Cruise hefur þar með efnt loforð sitt frá því í maí í fyrra um að ræsa þotuhreyflana á þessu ári.

#Day1

A post shared by Tom Cruise (@tomcruise) on

Enn er þó margt á huldu um myndina, og myndin hér að ofan segir ekki margt um það sem koma skal. Leikstjóri er Joseph Kosinski, en hann og Cruise gerðu saman Oblivion.

Það eina sem vitað er um söguþráð nýju myndarinnar eru óljósar hugmyndir um að orrustudrónar komi við sögu, og að Val Kilmer muni eiga mögulega endurkomu í hlutverki Iceman.

Top Gun: Maverick kemur í bíó 12. júlí 2019, en við fáum fljótlega að sjá Cruise í Mission Impossible – Fallout, nánar tiltekið 1. ágúst nk.