Fimm ár eru nú liðin frá frumsýningu Tinna myndarinnar, The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn, og ekkert virðist bóla á framhaldsmynd, eða myndum.
Þessari fyrstu Tinna mynd, sem Steven Spielberg leikstýrði, gekk nokkuð vel í bíó og þénaði 374 milljónir Bandaríkjadala í sýningum um allan heim. Myndin átti að vera sú fyrsta af þremur og átti The Lord of The Rings leikstjórinn Peter Jackson að leikstýra myndum númer tvö og þrjú. Mikið annríki Jackson við leikstjórn Hobbita þríleiksins, hefur hinsvegar valdið því að Tinni bíður enn uppi á hillu.
Nú hafa hinsvegar borist nýjar fregnir af verkefninu frá Spielberg sjálfum, sem gefa til kynna að enn standi til að gera framhaldsmyndirnar tvær, þó langur tími sé liðinn frá þeirri fyrstu: „Peter var svo upptekinn við að gera The Hobbit að það kom niður á Tinna,“ sagði hann við Time Out New Zealand, „og hann er að vinna að annarri mynd núna fyrir mig og mitt fyrirtæki. Það er leyndarmál, enginn veit neitt um það. En eftir að því lýkur mun hann gera Tinna,“ sagði Steven Spielberg.
Miðað við þessi orð er enn nokkuð langt í að myndirnar komi, en þolinmæði er dyggð sagði einhver …