Þorsti verðlaunuð á Screamfest

Íslenska „gay-vampírumyndin“ Þorsti, í leikstjórn Gauks Úlfarssonar og Steinda Jr., vann til tvennra verðlauna á bandarísku hryllingsmyndahátíðinni Screamfest. Um er að ræða stærstu og elstu hryllingsmyndahátíð vestanhafs og eru þar sýndar kvikmyndir frá öllum heimshornum í þeim geira. 

Bæði verðlaun Þorsta á Screamfest voru fyrir brellur; hlaut þá  Geir Njarðarson verðlaun fyrir brelluförðun (e. special effects make up) og Atli Þór Einarsson fyrir sjónrænar brellur (e. visual effects).

Steindi Jr. deildi mynd af annarri verðlaunastyttunni á samfélagsmiðlum, hæstánægður með árangur myndarinnar og sagði: 

Haldiði ekki bara að vampírublóðbaðsmeistaraverkið Þorsti hafi verið að landa tveimur svona styttum á stærstu horrorhátíðinni í USA Screamfest! 

Þetta er auðvitað magnað stuð en ef þið viljið horfa á meistarastykkið mæli ég með því að byrja á því að horfa á þættina, Góðir Landsmenn. 

Allt inn á Stöð 2 maraþon“

https://www.instagram.com/p/CGdD7DeBgwF/

Tilurð kvikmyndarinnar Þorsti var einstök á íslenskan mælikvarða og þó víða væri leitað. Myndin var lokahnykkurinn á sjónvarpsþáttaröðinni Góðir landsmenn. 

Þorsti var frumsýnd á Íslandi síðastliðinn nóvember við góðar undirtektir áhorfenda. Myndin er unnin í samstarfi við áhugamannaleikhópinn X og Hjört Sævar Steinason. Ásamt Hirti fara þau Hulda Lind Kristinsdóttir, Jens Jensson, Ester Sveinbjarnardóttir, Birgitta Sigursteinsdóttir og Birna Halldórsdóttir með helstu hlutverk.

Steindi fer sjálfur með hlutverk í myndinni og fara þjóðþekktar stjörnur með ýmis aukahlutverk, þar á meðal Halldóra Geirharðsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson og margir fleiri.

Þorsti gerist í litlum bæ, ekki ólíkum Reykjavík þar sem óöld liggur í loftinu og undarlegir glæpir og hrottaskapur virðast vera daglegt brauð. Myndin fjallar um Huldu sem er grunuð um að hafa orðið valdur að andláti bróður síns og er því til rannsóknar hjá Jens rannsóknarlögreglu. Móðir Huldu, sem skolar niður pillum með bláum Smirnoff á morgnana, trúir því einnig að hún hafi orðið bróður sínum að bana. 

Eftir að hafa verið sleppt úr varðhaldi hefur hún í engin hús að venda og þvælist um þar til hún rekst á Hjört, mörg þúsund ára gamla, einmana og samkynhneigða vampíru sem hjálpar henni að vekja Steinda, bróður hennar, til lífs aftur með hræðilegum afleiðingum á sama tíma og þau þurfa að verjast ágangi Esterar og Birgittu og sértrúarsöfnuði þeirra, sem virðist elta þau á röndum.

Stikk: