The Rock í stað Frasers í framhaldi leyndardóma Snæfellsjökuls

Nú er komið í ljós að leikarinn vinalegi Brendan Fraser snýr ekki aftur í framhaldsmynd ævintýramyndarinnar Leyndardómar Snæfellsjökuls, eða Journey to the Center of the Earth, eins og hún heitir á frummálinu. Eins og menn muna var fyrri myndin tekin að hluta hér á Íslandi, og skartaði Anitu Briem, íslenskri leikkonu, í aðalkvenhlutverkinu.
Sá sem tekur við hlutverki Fraser er annar vinalegur leikari, sjálfur kletturinn, The Rock, Dwayne Johnson.
Leikstjóri verður Brad Peyton, en myndin á að heita Journey 2: The Mysterious Island.
Ástæðan fyrir fjarveru Frasers er að tökur myndarinnar sköruðust á við önnur verkefni leikarans.
Í myndinni snýr leikarinn Josh Hutcherson aftur í hlutverki landkönnuðarins Sean Anderson, en The Rock mun leika kærasta mömmu Hutchersons, en Hutcherson er þvingaður til að taka The Rock með í ævintýraför til dularfullrar eyju, til að leita að afa sínum, sem er týndur.
Þrjár nýjar persónur í myndinni verða kynntar til sögunnar á næstu vikum en framleiðsla hefst í október í Norður Karólínu í Bandaríkjunum og á Hawaii.
Eins og fyrsta myndin, þá er þessi að sjálfsögðu í brjálaðri þrívídd.
Fyrri myndin sló í gegn og þénaði 250 milljónir dollara um heim allan árið 2008.
Dwayne Johnson er þessa stundina að leika í Fast and the Furious 5 og leikur næst í mynd sem heitir Faster, og er hasarmynd sem frumsýnd verður um þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum.
Í frétt Reuters er ekkert minnst á það hvort að Anita okkar Briem verði með í framhaldsmyndinni.