Samkvæmt FirstShowing.net átti Martin Campbell (Casino Royale, Edge of Darkness) upphaflega að leikstýra endurgerð á Alfred Hitchcock myndinni The Birds, en nú er hann víst farinn og mér skilst að næsta verkefni hans sé bíómynd um myndasöguhetjuna The Green Lantern.
En þessi endurgerð er greinilega ekki grafin því Dennis nokkur Illiadis er kominn í staðinn til að leikstýra. Illiadis er grískur leikstjóri sem gerði The Last House on the Left fyrr á þessu ári, og glöggir ættu að vita að sú mynd hafi einnig verið endurgerð.
Ekki er mikið vitað um þessa nýju útgáfu af The Birds. Í einhvern tíma hafði Naomi Watts ákveðið að taka þátt en hún er víst hætt við líka. Meira hlýtur að koma í ljós á næstunni.
Nýjasta mynd Martins Campbell, Edge of Darkness, verður aftur á móti frumsýnd snemma á næsta ári, og þar fer Mel Gibson með (comeback)hlutverk þar sem hann sparkar í fjölmarga rassa í bálreiðum hefndarhug.

