Terry Crews svarar Expendables aðdáendum

Viðbrögð aðdáenda The Expendables seríunnar voru vægast sagt neikvæð er tilkynnt var á dögunum að hasarmyndin The Expendables 2 yrði ætluð börnum 13 ára og eldri. Vöðvartröllið Terry Crews svaraði aðdáendum fullum hálsi í viðtali á dögunum:

„Myndin verður PG-13. Haldið þið virkilega að aðeins fertugir karlmenn hafi farið á fyrstu myndina? Krakkarnir keyptu miða á Eat, Pray, Love og löbbuðu svo beint inn í salinn á The Expendables“ Crews bætti svo við:

„Ég skil áhyggjurnar. Í alvöru. En brjóst og blóð eru ekki það sem gerir kvikmynd góða. Ef þú vilt ekki fara á myndina – ekki fara. Ég virði það. En þú munt missa af því stórkostlegasta sem þú munt nokkurntíman sjá.“

Þó að persónulega sé ég nú sammála þeirri staðhæfingu að gæði kvikmynda séu ekki mælanleg á skalanum lítrar af blóði per mínútu, þá hef ég á tilfinningunni að þetta sé ekkert endilega það sem aðdáendur myndarinnar vildu heyra. Crews er í rauninni að staðfesta að þessi ákvörðun sé tekin til að reyna að auka miðasölutekjur. Kaupið þið loforð White Chicks stjörnunnar um að The Expendables 2 verði það stórkostlegasta sem við munum nokkurntíman sjá?