Sá orðrómur gengur nú í Hollywood að diskóboltinn John Travolta ætli að taka fram diskó-dansskóna á nýjan leik, og gera þriðju myndina í Saturday Night Fever seríunni, en þegar hafa verið gerðar tvær myndir um töffarann Tony Manero; Saturday Night Fever og Staying Alive, sem gerist sex árum síðar og var leikstýrt af sjálfum Sylvester Stallone ( sem einnig skrifaði handritið ásamt Norman Wexler ).
Samkvæmt heimildum úr ýmsum áttum þá á Travolta nú í viðræðum við kvikmyndastúdíó um að snúa aftur í hlutverki Tony Manero og fullkomna þar með þríleikinn.
Þetta er auðvitað byggt á orðrómi ennþá en þegar maður pælir í því væri gaman að sjá kappann taka aftur snúning á dansgólfinu, þó að nokkrir áratugir séu síðan hann sló í gegn í hvítu jakkafötunum.