Fyrirfram hefði maður haldið að eftir atburði Taken 2 ( sem eðlilega verður ekki farið nánar út í hér ) muni enginn þora að bjóða fyrrum CIA manninum Bryan Mills aka Liam Neeson birginn. Framleiðslufyrirtækið 20th. Century Fox og handritshöfundarnir og meðframleiðendurnir Luc Besson og Robert Mark Kamen, eru þó á öðru máli og eru farnir að munda pennann í þeim tilgangi að búa til fleiri ævintýri um hinn eitilharða Mills.
Þessi áhugi framleiðendanna kemur reyndar lítið á óvart eftir velgengni myndarinnar í bíó um helgina, þegar hún fór rakleiðis á toppinn í Bandaríkjunum ( og á Íslandi ).
Taken 3 er því orðin raunhæfur möguleiki, þrátt fyrir að Neeson sjálfur hafi efast um þann möguleika, eins og við sögðum frá hér á kvikmyndir.is á dögunum.
„Við byrjuðum ekki að tala um Taken 3 fyrr en við sáum aðsóknartölurnar,“ segir Kamen í samtali við Hollywood.com. „En þá sögðum við, oh, ok. Ég held að við ættum að gera þá þriðju. Og Fox vill að við gerum þriðju myndina.“