Svifbretti Marty McFly í framleiðslu!

Fyrst komu Nike Mag skórnir úr Back to The Future og nú er komið að svifbrettinu, en leikfangafyrirtækið Mattel hefur ákveðið að hefja framleiðslu á svifbrettinu úr Back to the Future II. Það versta er kannski að svifbrettið svífur ekki í alvörunni eins og í myndunum (bú hú).

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta hlýtur að vera must-have gripur fyrir alla BTTF aðdáendur (ég er að horfa á 1-3 þessa dagana og þær eldast ótrúlega vel!), en svifbrettið er framleitt í sömu stærð og það sem notað er í myndinni og lítur alveg eins út – það er meira að segja gat í því (BTTF aðdáendur vita af hverju). Samkvæmt fréttatilkynningu frá Mattel getur svifbrettið rennt sér á flestum yfirborðum. Það eru eflaust til útgáfur af svifbrettinu í umferð þarna úti en þetta er opinbert eintak framleitt af vitund Marty McFly og félaga.

Svifbrettið kemur talsvert mikið við sögu í Back to the Future II en það er einnig framleitt af Mattel í myndinni. Árið er 2015 og McFly fær lánað svifbretti frá ungri hnátu þegar hann reynir að flýja frá Griff Tannen og genginu hans. McFly fær að eiga svifbrettið að lokum og notar það í fleiri ævintýrum í myndinni.

Mattel tekur á móti pöntunum 1. – 20. mars næstkomandi. Ef lágmarksfjölda pantana er ekki náð þá mun svifbrettið ekki verða framleitt og kaupendur fá endurgreitt. Áhugasamir geta pantað hér en pantanir hefjast ekki fyrr en eftir tvær vikur.