Svarthvít sjónvörp enn vinsæl

Tuttugu og átta þúsund heimili í Bretlandi nota enn svarthvít sjónvörp þrátt fyrir miklar framfarir í gerð og framleiðslu sjónvarpa, svo sem litasjónvarpa og flatskjáa. Þetta sýnir að gamla góða svart hvíta sjónvarpið lifir enn góðu lífi í Bretlandi.

Þetta kemur fram í frétt frá BBC sem má lesa í heild sinni hérna.

Gerð var könnun í Bretlandi í tilefni þess að 40 ár eru síðan fyrsta sjónvarpsútsendingin í lit fór fram í landinu.

Könnunin sýndi ýmislegt annað forvitnilegt hvað neyslu á sjónvarpsefni varðar, svo sem að ný tækni verður sífellt vinsælli þegar kemur að sjónvarpsáhorfi.

Í september sl. notuðu milljón einstakir notendur á dag iPlayer sem má finna á vefsíðu BBC, og horfðu þar á 60,8 milljón sjónvarpsþætti á netinu í gegnum ýmis tæki; tölvur, síma og leikjatölvur.

Hið hefðbundna sjónvarpstæki fyrir framan stofusófann er þó enn vinsælasta tækið til að horfa á sjónvarpsefni í, en sala á flatskjám hefur til að mynda þrefaldast á síðustu þremur árum, að því er segir í fréttinni frá BBC.

Fyrsta útsendingin í lit í Bretlandi átti sér stað þann 15. nóvember árið 1967.