Svarthöfðabúningur til sölu í dag – fæst á 41 milljón

Uppboðsfyrirtækið Christie´s hefur nú til sölu upprunalegan Svarthöfðabúning úr Star Wars myndunum.
Búningurinn, sem samanstendur af svörtum hjálmi, grímu og brynju, er talinn munu seljast í dag á 160.000 – 230.000 pund, eða um 29 – 41,5 milljón íslenskar krónur.
Christie´s segir að búningurinn hafi líklegast verið búinn til fyrir The Empire Strikes Back frá árinu 1980, aðra myndina í Stjörnustríðs myndaflokknum eftir George Lucas.
Neil Roberts, sem stýrir deild dægurmenningar hjá uppboðsfyrirtækinu, segir að búningurinn sé einn sá frægasti í sögu kvikmyndanna.
Ekki er gefið upp hver seljandinn er, einungis sagt að hann sé bandarískur safnari.