Stooges-stiklan vekur upp kjánahroll

Einu sinni var sú tíð að fólk var ofsalega spennt fyrir nýrri mynd frá Farrelly-bræðrum, en þeir, fyrir þá sem ekki vita, stóðu á bakvið Dumb & Dumber, Kingpin, There’s Something About Mary og Shallow Hal svo eitthvað sé nefnt. Flestir gagnrýnendur – og sennilega margir áhorfendur – hafa sagt að þessir gamanleikstjórar séu löngu búnir að missa dampinn. Jafnvel ef þið eruð ekki sammála því núna, þá ætti það að breytast þegar þið sjáið stikluna fyrir nýjustu myndina þeirra, The Three Stooges, sem byggt er á þekktu fyrirbæri.

Myndin má svosem eiga það að hún virðist vera stíl við gömlu þættina. Um er að ræða svokallaðan „slapstick“ húmor, og þá beint í æð og ljóst er að aðdáendur nýju Pink Panther-myndanna gætu þótt þetta afskaplega skemmtilegt.

Einu sinni kom það til greina að fá leikara á borð við Jim Carrey, Sean Penn og Benicio Del Toro til að leika þessa aulabárða en þeim hefur augljóslega verið skipt út, og núna fara Sean Hayes (Will & Grace), Will Sasso (Mad TV) og Chris Diamantopoulos (sem hefur ekki gert neitt af viti) með lykilhlutverkin.

Horfið á sýnishornið og þá sjáið þið af hverju þekktu leikararnir létu þetta verkefni í friði: