Steini og Olli heimsfrumsýnd á BFI

Nú þegar sumri er tekið að halla, getum við byrjað að láta okkur hlakka til kvikmyndahátíðatímabilsins, sem stendur yfir frá því í lok ágúst og fram í fyrstu mánuði 2019.

Ein af hátíðunum sem væntanlegar eru er BFI London Film Festival, sem hefst í október, og nú hafa borist fregnir af lokamynd hátíðarinnar, sem sýnd verður þann 21. október.

Sú mynd verður engin önnur en Stan & Ollie, eða Steini og Olli, eins og hún myndi heita í íslenskri þýðingu. Myndinni er leikstýrt af Jon S. Baird, og segir sögu hinna goðsagnakenndu grínista Laurel og Hardy, en þeir eiga fjölmarga aðdáendur hér á landi, þó líklega séu þeir flestir komnir af léttasta skeiði. Með hlutverk þeirra kumpána fara þeir John C. Reilly og Steve Coogan.

„Ég er mjög stoltur af því að fá að heimsfrumsýna kvikmyndina í Lundúnum; borg sem er mér svo kær, og ég veit að hún var þeim Stan Laurel og Oliver Hardy álíka kær,“ sagði Baird.

„Í grunninn er Stan & Ollie, ástarsaga tveggja gamalla vina, en svo vill til að þeir eru einnig tveir af frægustu gamanleikurum í sögu Hollywood.“

Opnunarmynd BFI hátíðarinnar verður nýjasta mynd Óskarsverðlaunahafans Steve McQueen, spennutryllirinn Widows, með þeim Viola Davis, Michelle Rodriguez, Elizabeth Debicki og Cynthia Eric í helstu hlutverkum.

Dagskrá hátíðarinnar verður birt í heild sinni 30. ágúst nk.