Steinfeld á flótta ásamt Vaughn

Leikkonan Hailee Steinfeld, sem sló í gegn í kúrekamyndinni True Grit og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í þeirri mynd, á nú í viðræðum um að leika á móti Vince Vaughn í myndinni Term Life.

hailee steinfeld

Leikstjóri myndarinnar verður Peter Billingsley og A.J. Lieberman skrifar handrit. Myndin er byggð á myndskreyttri skáldsögu sem Lieberman gerði ásamt Nick Thornborrow.

term lifeMyndin fjallar um mann sem skipuleggur og selur rán til hæstbjóðanda. Þegar síðasta verkefnið fer illilega úrskeiðis þá endar það með því að allir sem þekkja hann eru á hælunum á honum og vilja koma honum fyrir kattarnef.

Það eina sem honum dettur í hug að gera er að setja á svið eigin dauða og taka út líftryggingu, þannig að dóttir hans fær peningana sem arfþegi.  Til allrar óhamingju þá fær hann ekki peningana fyrr en 21 degi eftir „dauðann“ og þarf nú að leggja á flótta með stúlku, dótturinni, sem hann þekkir varla neitt.

Steinfeld sést næst í myndinni Ender´s Game sem frumsýnd verður hér á Íslandi 1. nóvember nk.