Stallone heiðraður fyrir ævistarfið

Ítalsk ættaða sjarmatröllið, frístundamálarinn, leikarinn og leikstjórinn Sylvester Stallone verður heiðraður á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum sem haldin verður á næstunni, og var kominn tími til.
Stallone mun fá hin svokölluðu Glory to the Filmmaker verðlaun, en áður hafa kvikmyndagerðarmennirnir Takeshi Kitano, Agnès Varda og Abbas Kiarostami orðið þessa heiðurs aðnjótandi. Verðlaunin eru veitt árlega og fara til listamanns sem hefur sett mark sitt á nútíma kvikmyndagerð.
„Að vera heiðraður á Feneyjarhátíðinni er eitthvað sem ég hef alltaf vonast eftir að yrði að veruleika, og nú er sá draumur að rætast eftir langa bið, sem hefur nú borgað sig,“ sagði Stallone í yfirlýsingu. 

Feneyjarhátíðin verður haldin í 66. sinn nú í haust og stendur frá 2. – 12. september.