Stærsti King Kong allra tíma – Fyrsta mynd!

Vefsíða Entertainment Weekly birti í dag fystu opinberu ljósmyndina úr nýju King Kong myndinni Kong: Skull Island, með þeim Tom Hiddleston og Brie Larson í aðalhlutverkum.

Kong-+Skull+Island

Á myndinni standa þau Hiddleston og Larson í einhverskonar beinakirkjugarði, og greinilegt er að kvikindið sem beinin eru af, hefur ekki verið nein smásmíði!

Myndin er sögð gerast í sama heimi og Godzilla endurgerð Warner Bros var látin gerast, enda er áætlað að búa til mynd með þessum risaskrímslum saman árið 2020, Kong VS Godzilla.

Í samtali við EW sagði Jordan Vogt-Roberts leikstjóri myndarinnar, að  von væri á miklum stærðum í þessum nýja King Kong heimi: „Af stærð höfuðkúpunnar má ráða að hlutirnir á þessari eyju eru mun stærri en menn eiga að venjast úr eldri Kong myndum. Okkar Kong er sá langstærsti sem þú hefur séð á hvíta tjaldinu.“

Vogt-Roberts gengur lengra í þessum samanburði, og segir að í King Kong eftir Peter Jackson hafi Kong verið um 7,6 metrar á hæð, og King Kong frá árinu 1933 hafi verið á bilinu 7,5 – 15,2 metrar á hæð. „Ég vil meina að hann hafi verið meira en 15 metrar þegar hann var á Empire State byggingunni. Stærð hans breyttist mikið innan myndarinnar! King Kong á áttunda áratugnum var svo einhversstaðar á milli þessara tveggja.“

Vogt-Roberts segir að Kong: Skull Island gerist á áttunda áratugnum og muni fjalla aðallega um eyjuna þar sem hann á heima.

Von er á fyrstu stiklunni úr myndinni í næstu viku, á Comic-Con hátíðinni í San Diego.

Myndin kemur í bíó 10. mars, 2017.

Sjáðu nýju ljósmyndina hér fyrir neðan:

Kong-+Skull+Island (1)