Stærri helgi hjá Hobbitanum en Avatar

Myndin um Hobbitann, The Hobbit: An Unexpected Journey, sem forsýnd hefur verið hér á landi um helgina, var frumsýnd í Bandaríkjunum og fleiri löndum nú um helgina.

Samkvæmt nýjustu tölum þá hefur myndin þegar þetta er skrifað þénað 223 milljónir dala um allan heim, 138,2 milljónir utan Bandaríkjanna, en 84,8 milljónir í Bandaríkjunum, samkvæmt bráðabirgðatölum.

Myndin er þar með orðin aðsóknarmesta mynd allra tíma fyrir mynd sem er frumsýnd í desember, miðað við sýningar frá föstudegi til sunnudags, og slær þar við risamyndinni Avatar, svo dæmi sé tekið.

Myndir sem frumsýndar eru fyrir jól í desember eru í sögulegu samhengi aldrei jafn vel sóttar á frumsýningarhelgi og myndir sem eru til dæmis frumsýndar í maí, júlí eða nóvember.

Sumir bjuggust við að myndin myndi fara yfir 100 milljónir dala í tekjur yfir helgina, en það virðist ekki hafa tekist, og nefndar eru ástæður eins og nýja 48 ramma tæknin sem myndin er sýnd í, og skotárásin í Newtown í Connecticut fyrir helgi.

Sú mynd sem átti metið hvað varðar tekjur á frumsýningarhelgi í desember var mynd Will Smith, I am Legend, með 77,2 milljónir dala í tekjur, en þar á eftir kom Avatar, mynd James Cameron, aðsóknarmesta mynd allra tíma. Avatar er núna í þriðja sæti á þessum lista.

Listi yfir tíu aðsóknarmestu myndir í Bandaríkjunum nú um helgina er hér að neðan:

  1. The Hobbit: An Unexpected Journey, 84,8 milljónir dala.
  2. Rise of the Guardians, 7,4 milljónir dala.
  3. Lincoln, 7,2  milljónir dala.
  4. Skyfall, 7 milljónir dala.
  5. Life of Pi,  5,4 milljónir dala.
  6. The Twilight Saga: Breaking Dawn Part 2, 5,2 milljónir dala.
  7. Wreck-It Ralph, 3,3 milljónir dala.
  8. Playing for Keeps, 3,2  milljónir dala.
  9. Red Dawn, 2,4 milljónir dala.
  10. Silver Linings Playbook, 2,1 milljónir dala.