Uppvakningarnir í “Resident Evil” eru ekki dauðir úr öllum æðum. Nýjasta resident Evil myndin; “Resident Evil: Extinction” með Milla Jovovich, sem enn á ný á í baráttu við mannakjötsóða uppvakninga í þessari þriðju mynd sem byggð er á vinsælum tölvuleik, var vinsælasta myndin í kvikmyndahúsum vestanhafs um helgina, þegar 24 milljónir Bandaríkjadala komu inn í aðgangseyri á myndina. Framleiðandi myndarinnar, Sony Screen Gems, gaf í skyn eftir að ljóst var hverjar vinsældir myndarinnar yrðu, að það væri jafnvel von á meiru, og fleiri myndir bættust í seríuna. Áður hafði verið gefið í skyn að þessi þriðja yrði sú síðasta. Önnur mest sótta myndin í Bandaríkjunum um helgina var Good Luck Chuck með Jessica Alba og Dane Cook, en hér er um rómantíska gamanmynd að ræða. Gott gengi myndarinnar kom nokkuð á óvart þar sem gagnrýnendur höfðu hakkað hana í sig. Þriðja mest sótta myndin varð síðan “Sydney White” með Amanda Bynes í hlutverki busa í framhaldsskóla sem berst gegn snobbliðinu í skólanum.

