Sprellfjörug illska á toppnum

Það fór eins og menn spáðu á laugardaginn, illskan trekkti mest að í bandarískum bíóhúsum um helgina og endurgerðin á hrollvekjunni Evil Dead reyndist vera vinsælasta myndin.

Myndin þénaði 26 milljónir Bandaríkjadala og ruddi G.I. Joe: Retaliation úr toppsætinu, en hún fór á toppinn þegar hún var frumsýnd um síðustu helgi.

Velgengni hrollvekjunnar kom nokkuð á óvart samkvæmt bandarískum netmiðlum, en myndin er endurgerð á sígildri mynd Sam Raimi frá 1981. Myndin þénaði til dæmis tveimur milljónum dala meira en búist var við, auk þess sem gagnrýnendur virðast margir vera nokkuð hrifnir, samkvæmt frétt USA Today.

Teiknimyndin The Croods lenti í öðru sæti um helgina og G.I. Joe í því þriðja.

Jurassic Park 3D fékk einnig gott start og þénaði 18,2 milljónir dala í fjórða sætinu.

Velgengni Jurassic Park 3D eru góðar fréttir fyrir Universal kvikmyndaverið sem notar þessa þrívíddarútgáfu af þessari fyrstu mynd í Júragerðsseríunni, til að kynda undir spennunni fyrir Jurassic Park IV sem væntanleg er í bíó í júní á næsta ári.

Hér fyrir neðan er listi 10 aðsóknarmestu bíómynda um helgina í Bandaríkjunum:

1. Evil Dead, 26 milljónir dala.

2. The Croods, 21,1 milljón dala.

3. G.I. Joe: Retaliation,21,1 milljón dala.

4. Jurassic Park 3D, 18,2 milljónir dala.

5. Olympus Has Fallen, 10 milljónir dala.

6. Tyler Perry’s Temptation, 10 milljónir dala.

7. Oz the Great and Powerful 8,2 milljónir dala.

8. The Host, 5,2 milljónir dala.

9. The Call, 3,5 milljónir dala.

10. Admission, 2,1 milljónir dala.