Sparar ekki stóru orðin: „Besta atriði kvikmyndasögunnar… Það grétu allir í heiminum“

Skemmtikrafturinn Vin Diesel er ekki þekktur fyrir að sitja á skoðunum sínum þegar kemur að því að mæra eigin bíómyndir. Vakti hann til dæmis mikla athygli fyrir fimm árum þegar hann sagði að Fast & Furious 7 ætti skilið Óskarsverðlaun sem besta mynd. Hann sagði að ýmsir framleiðendur hefðu kvartað yfir því að hasarmyndir njóta ekki sannmælis hjá Óskarsakademíunni, en að Furious 7 væri sú mynd sem yrði undantekning við þeirri reglu.

Ber að geta að þetta var sama ár og hasarmyndin Mad Max: Fury Road kom út – sem féll einmitt afar mikið í kramið hjá akademíunni.

Engu að síður stendur Diesel enn fastur á þeirri skoðun að Furious 7 sé stórmeistaraverk í kvikmyndasögunni. Diesel var nýlega staddur í viðtali við New Musical Express (e. NME) að kynna hasarmyndina Bloodshot þegar hann rifjaði upp sögurnar á bakvið tjöldin á Furious 7, þegar framleiðsluferlið tók u-beygju og leikarinn Paul Walker lést í bílslysi. Þeir Walker voru miklir mátar og tók sá fyrrnefndi fráfall þess síðarnefnda mjög nærri sér. Diesel skírði dóttur sína Paulina, í höfuðið á vini sínum sem hann kallaði bróður.

Allir karlmenn í tárum

Þegar Walker lést var um helmingi tökudaga lokið en eftir mikla umhugsun ákváðu aðstandendur myndarinnar að ljúka við myndina, ekki síst sem virðingarvott við Walker. Handritinu var breytt og voru bræður hans, Caleb og Cody Walker, fengnir til þess að hlaupa í skarðið í nokkrum atriðum. Þá var líka notast við tölvubrellur og gamlar tökur af leikaranum.

Diesel segir það hafa skipt sig gríðarmiklu máli að andlát Walkers hafi ekki verið skrifað inn í handrit Fast & Furious 7, að fráfall hans í bíómyndinni yrði ekki útfært sem hvati fyrir hefnd hjá hinum persónunum.

„Í stað þess að nota andlátið sem söguþráð tókst okkur að gera eitthvað svo fallegt og ótrúlega flott,“ segir Diesel í viðtalinu og vísar í lokasenu myndarinnar, þar sem Walker er heiðraður og „kvaddur“ í sögunni. Diesel bætir við:

„Þetta er líklega besta atriði kvikmyndasögunnar, ekki bara á mínum ferli, heldur í allra kvikmyndasögunni. Það grétu allir í heiminum þegar þeir sáu þetta og karlmennirnir sérstaklega. Í fyrsta sinn í sögu mannkynsins gátu karlmenn um allan heim grátið saman.“

Þennan tímamótaendi sem um ræðir má sjá hér að neðan, ásamt viðtalinu við Diesel þar sem liggur fyrir að honum er dauðans alvara með stóru orðin.