Náðu í appið
10
Bönnuð innan 12 áraMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

Fast and Furious 2009

(Fast )

Frumsýnd: 3. apríl 2009

New Model. Original Parts.

107 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 29% Critics
The Movies database einkunn 46
/100

Þegar glæpur er framinn í Los Angeles fer Dominic Toretto (Vin Diesel), sem nú er fyrrum fangi á flótta undan lögunum, aftur til borgarinnar vegna tengsla sinna við glæpinn. Hann er þó ekki einn á ferð, því lögreglumaðurinn Brian O’Connor (Paul Walker) hefur leitað hans lengi og er nú bókstaflega á hælum hans. Þeirra leiðir mætast því loks á ný og... Lesa meira

Þegar glæpur er framinn í Los Angeles fer Dominic Toretto (Vin Diesel), sem nú er fyrrum fangi á flótta undan lögunum, aftur til borgarinnar vegna tengsla sinna við glæpinn. Hann er þó ekki einn á ferð, því lögreglumaðurinn Brian O’Connor (Paul Walker) hefur leitað hans lengi og er nú bókstaflega á hælum hans. Þeirra leiðir mætast því loks á ný og eru illdeilur þeirra skyndilega endurvaktar. Þegar þeir komast að því að þeir eiga sameiginlegan og mjög hættulegan óvin neyðast þeir þó til að taka höndum saman og reyna einhvern veginn að treysta hvor öðrum, vilji þeir lifa af hinn hraðskreiða og hættulega eltingaleik sem framundan er. ... minna

Aðalleikarar

Vrúmm vrúmm *geisp*
Ég hef aldrei fattað hvernig The Fast and the Furious komst í svona hátt álit meðal manna, m.a.s. bílaáhugamanna! Það voru kannski 2-3 flottar bílasenur í henni en annars var öll myndin bara æfing í lélegum samtölum og ennþá verri frammistöðum. Skemmtanagildi var takmarkað, enda tók hún sig svo fáránlega alvarlega á köflum að það var sárt á augun.

2 Fast 2 Furious fannst mér alltaf vera betri mynd. Ekki endilega vegna þess að John Singleton er hiklaust betri leikstjóri heldur en Rob Cohen heldur kom hún sér beint að efninu frá fyrstu mínútu og vissi allan tímann að hún væri hallærisleg og heilalaus. Persónurnar fóru ekkert að tjá sig eða væla að óþörfu til að sprauta einhverri gervidramatík inn í myndina heldur gekk hún bara út á brjálaðan stíl, háværa eltingarleiki og hraða keyrslu (no pun intended). Tokyo Drift var hvorki leiðinleg né góð. Ég gleymdi henni stuttu eftir að ég sá hana.

Titillinn á þessari fjórðu mynd, Fast & Furious, finnst mér alveg glataður. Það hefði kannski ekkert hljómað betur að skíra hana 4 The Fast 4 The Furious, en a.m.k. hefði það passað betur í seríuna. Að taka "The" úr heitinu á fyrstu myndinni virkar svo metnaðarlaust og ófrumlegt að það er ekki einu sinni fyndið. Síðan er ekkert skárra að myndin sjálf reynist vera hvorki ferskari né hugmyndaríkari heldur en titillinn.

Það eru stórfín bílaatriði í myndinni, og það er stór plús að þau hafi ekki verið kvikmynduð á ofvirkum hraða eða klippt niður í sekúndubrot. Þau eru aftur á móti óvenju dæmigerð og gera nákvæmlega ekkert nýtt sem maður hefur ekki séð áður. Þau gera heldur ekkert sem maður sá ekki í hinum þremur myndunum. Það finnst mér vera nokkuð lélega gert af leikstjóranum Justin Lin (sem einnig gerði Tokyo Drift), enda vita bókstaflega ALLIR að eina ástæðan af hverju fólk fer á þessar myndir er vegna bílasenanna. Þetta er FJÓRÐA myndin í röðinni! Hvað er að því að krydda þetta aðeins??

Fast & Furious hefur ýmislegt fram yfir fyrstu myndina. Hún er örlítið betur skrifuð, betur leikin og virðist ekki vera eins sama um söguþráðinn því hér er hægt að finna slíkan, allavega ef leitað er nógu vel. Annars hefur það lítið breyst hversu alvarlega hún tekur sig á köflum. Persónurnar voru svo illa skrifaðar í fyrstu myndinni og þær fá heldur enga nánari í dýpt í þessari. Mér var skítsama um þær hér áður, og sama gildir um þær núna. Handritið reynir ekki einu sinni að styrkja tengslin á milli þeirra og gefa áhorfandanum almennilega ástæðu til að líka vel við þær og halda með þeim. Það nægir heldur ekkert að pósa sífellt og vera töffaralegur. Margir myndu eflaust grípa fram í fyrir mér þarna og segja að myndin eigi ekki að snúast um persónusköpun heldur bara bílana, og því er ég reyndar sammála! Málið er bara að stundum er svo hrikalega langt á milli kappaksturssena og þarf maður í kjölfarið að þola grútleiðinlegar uppfyllingar sem leggja engan metnað í að gera persónurnar eða plottið áhugaverðara.

Leikararnir eru ekkert til að hrópa húrra fyrir, en þeir sleppa alveg. Það eru aðallega handritshöfundarnir sem höfðu þurft að leggja meira á sig. Einhvern veginn finnst manni eins og þessi mynd sé ekkert annað en bara enn eitt peningabúntið sem aðstandendur vildu ólmir fá. Það er svo lítið lagt í ræmuna til að gera hana að öflugri testósterónmynd sem almennilega stendur undir heiti sínu. Það vantar ekki hraðann svosem, en myndin er ekki nógu fjúríus.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn